Grátlegt er að fylgjast með greinarskrifum og málflutningi ýmissa sjálfstæðismanna vegna málefna Reykjavíkurborgar. Núverandi og fyrrverandi borgarfulltrúar flokksins senda reglubundið frá sér innihaldsrýrar níðgreinar um borgarstjórnarmeirihlutann og fjalla einkum um meint fjárhagsleg vandamál borgarinnar.
Nýjasta greinin, sem birtist í Morgunblaðinu um liðna helgi undir fyrirsögninni „Óráðsía í fjármálastjórn“ er frá fyrrverandi borgarstjóra flokksins, Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni. Áður greininn er lesin má ætla að Vilhjálmur sé að fjalla um ríkisfjármálin sem hafa verið á hendi sjálfstæðismanna allt frá áinu 1991, ef undan er skilinn tími ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, árin 2009 til 2013. Síðustu sjö árin hefur Sjálfstæðisflokkurinn stýrt ríkisfjármálunum í vinstri stjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Allan þann tíma hefur verið halli á ríkisfjármálunum – og það enginn smáhalli, gjarnan hundrað eða jafnvel mörg hundruð milljarðar króna á ári. Lengst af í fjármálaráðherratíð Bjarna Benediktssonar, formanns flokks Vilhjálms.
Ef fjallað er um halla á fjármálum opinberra aðila ættu sjálfstæðismenn að líta sér nær og byrja á stóra fílnum í postulínsbúðinni og tala um fjárlagahalla ríkissjóðs undir forystu flokksins. Sveitarfélögin hafa mörg hver verið rekin með nokkrum halla á undanförnum árum vegna þess að ekki hefur tekist að ljúka við réttláta skiptingu tekna ríkis og sveitarfélaga til að mæta þeim auknu útgjöldum sem sveitarfélögin hafa þurft að taka við af ríkinu.
Þetta veit Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson manna berst. Fjármálahalli borgarinnar er þó smár saman borið við þann gífurlega halla sem er á ríkisfjármálunum í valdatíð Sjálfstæðisflokksins. Sveitarfélögin víða um land hafa þurft að fást við erfiða fjármálastöðu undanfarin ár, m.a. vegna rangrar skiptingu tekna milli þeirra og ríkisins og svo vegna erfiðrar verðbólgu og okurvaxta sem bitna á öllum í boði núverandi vinstristjórnar þar sem Sjálfstæðisflokkurinn ræður mestu um fjármál og efnahagsmál.
Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa öll þurft að fást við þennan vanda, þar á meðal Kópavogur, Hafnarfjörður og Garðabær, sem öll lúta nú stjórn Sjálfstæðisflokksins, að ekki sé minnst á Seltjarnarnesbæ sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur stýrt alla tíð. Þar eru meðaltekjur hvað hæstar á landinu en bærinn hefur samt verið rekinn með halla síðustu sjö árin undir óreiðukenndri forystu Sjálfstæðisflokksins.
Umrædd blaðagrein Vilhjálms er keimlík fjölmörgum öðrum greinum sem hann hefur birt um sama efni. Ekkert nýtt kemur þar fram og fátt stenst alvarlega skoðun. Um er að ræða almennan skæting og svekkelsi gagnvart borgarstjórnarmeirihlutanum sem hefur að mestu verið annar en sjálfstæðismanna síðustu 30 árin. Undantekning frá því er þó að árið 2006 tókst Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni að mynda meirihluta með Framsókn og tók sjálfur við stöðu borgarstjóra og gengdi henni með sóma í 17 mánuði þar til félagar hans í Sjálfstæðisflokknum ráku pólitískan rýting í bak hans og felldu Vilhjálm úr borgarstjórastólnum. Það voru þau Gísli Marteinn Baldursson, Hanna Birna Kristjánsdóttir og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, en hún sendi frá sér hið fræga sms til Vinstri grænna og bauð þeim samstarf með þessum skilaboðum: „til í hvað sem er án Villa.“ Og þar með féll meirihluti Sjálfstæðisflokksins. Þvílíkir samstarfsmenn!
Hver vill vinna með óheilindaflokki og óheilindafólki eins og þeim þremenningum? Enda hefur Dagur B. Eggertsson myndað starfhæfa meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur allt frá árinu 2010 þar sem mismunandi flokkar hafa unnið saman af heilindum. Píslarganga Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn stendur enn yfir og ekki sér fyrir endann henni. Kjósendur hafa ítrekað hafnað leiðsögn Sjálfstæðisflokksins sem mælist jafnan með fjórðungsfylgi en hafði á árum áður stuðning 50 til 60 prósenta borgarbúa, m.a. meðan Vilhjálmur átti sæti í borgarstjórninni.
Vilhjálmur Þ. og félagar geta haldið áfram að birta sömu blaðagreinina og nöldra en það mun engu breyta. Sjálfstæðisflokkurinn verður áfram í stjórnarandstöðu í borginni.
- Ólafur Arnarson.