Í nýjasta helgarblaði Fréttablaðsins birtust fjölmargar auglýsingar eftir stjórnendum á mörgum mismunandi stöðum, bæði hjá einkafyrirtækjum og hjá hinu opinbera. Menn muna varla eftir annarri eins eftirspurn eftir stjórnendum.
Hæst ber væntanlega að auglýst er eftir forstjóra FESTI sem á og rekur N-1, Krónuna, Elko og fleiri fyrirtæki. Einnig er leitað að forstjóra hjá ORF líftækni, framkvæmdastjóra fyrir Loftslagsráð, tæknistjóra hjá Nóa Síríus og tveimur nýjum sviðsstjórum hjá Reykjavíkurborg. Þá er einnig leitað að hjúkrunarforstjóra Dvalarheimilisins Lundar á Hellu.
Framkvæmdasýsla ríkisins leitar að þremur sérfræðingum og Mennta-og barnamálaráðuneytið vill ráða hvorki fleiri né færri en fjóra skrifstofustjóra.
HS Veitur leita að nýjum forstjóra en Landsvirkjum ætlar að ráða sérfræðinga rétt eins og nýsköpunarfyrirtækið Coripharma. RUBIX á Reyðarfirði er á höttunum eftir rekstrarstjóra. Þá er starf forstjóra Menntamálastofnunar laust til umsóknar.
Hér er einungis um sýnishorn að ræða en til viðbótar getur að líta auglýsingar þar sem leitað er að yfirmönnum launadeilda sveitarfélaga, gæðastjóra og mannauðsstjóra og loks lögfræðingum til starfa hjá Persónuvernd.
Full ástæða er til að hafa áhyggjur af því hve opinberir aðilar eru hér áberandi – enda þenst ríkisbáknið stöðugt út, stjórnlaust að því er virðist.
- Ólafur Arnarson.