Forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafa ítrekað lýst því yfir að kosningar fari fram í lok október. Þeir komast ekki hjá því að efna þau loforð sem voru gefin þegar ríkisstjórnin var við þar að hrökklast frá í byrjun apríl eftir það uppnám sem varð í þinginu og þjóðfélaginu þegar upplýst var að þrír ráðherrar ríkisstjórnarinnar kæmu við sögu í svonefndur Panamaskjölum vegna Tortólaviðskipta. Í kjölfarið hrökklaðist Sigmundur Davíð frá og loforð var gefið um að flýta kosningum fram til næsta hausts.
Nú kemur æ betur í ljós að Framsókn vill ekki fara í kosningar á þessu ári. Gunnar Bragi Sveinsson lýsti því yfir á Hringbraut í gær að ekkert lægi á kosningum og Sigmudnur Davíð Gunnlaugsson, alþingismaður, sem kominn er heim úr 7 vikna endurhæfingu erlendis tók í sama streng í viðtölum. Fleiri þingmenn Framsóknar hafa talað með svipuðum hætti að undanförnu.
Það er ekkert nýtt að þessi ríkisstjórn standi ekki við loforð sín. En hún mun ekki komast upp með að svíkja loforð um haustkosningar. Reyni hún það má búast við því að kjósendur fjölmenni á Austurvöll í þúsunda eða tugþúsundatali og reki ríkisstjórnina burt úr þinginu. Varla vill Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra bera ábyrgð á því.
Framsóknarmenn mælast nú með 4 til 7 þingmenn í skoðanakönnunum. Núverandi þingmenn gera sér flestir ljóst að þeir eiga ekki afturkvæmt til þings eftir kosningar og vilja hanga á völdum sínum eins lengi og kostur er. Skítt með einhver loforð oddvita ríkisstjórnarinnar.
Fáeinir þingmenn Framsóknar eru nokkuð öruggir með sæti sín en flestir þeirra sem hér eru nefndir munu ekki ná endurkjöri ef fram haldur sem horfir. Fjórir þeirra hafa stundað háskólanám megnið af kjörtímabilinu og geta þá snúið sér að því af fullum krafti, þar á meðal Karl Garðarsson og Haraldur Einarsson. Sigrún Magnúsdóttir hefur lýst því yfir að hún sækist ekki eftir endurkjöri. Eftirtaldir eiga litla möguleika á að ná endurkjöri og vilja skiljanlega hanga á þingmannslaununum fram á vor 2017:
Ásmundur Einar Daðason, Elsa Lára Arnardóttir, Frosti Sigurjónsson, Haraldur Einarsson, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Karl Garðarsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Páll Jóhann Pálsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Willum Þór Þórsson, Þorsteinn Sæmundsson og Þórunn Egilsdóttir.
Hjá Sjálfstæðisflokknum er þetta ekki sama vandamálið vegna þess að flokkurinn er að mælast með svipað fylgi og hann fékk í kosningunum. Hann ætti því að halda þingmannafjölda sínum að óbreyttu. Hins vegar eru nokkrir þingmenn og ráðherrar í veikri stöðu innan flokksins vegna misgjörða sinna eða lélagrar frammistöðu á kjörtímabilinu. Það á við um Hönnu Birnu, Illuga Gunanrsson og Ragnheiði Elínu Árnadóttur. Þau vilja því ekki flýta kosningum. Talið er að formaður flokksins láti það ekki trufla áform um haustkosningar.