Engin ríkisstjórn hefur misst fylgi sitt eins hratt og sú sem nú situr samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup sem birtur var fyrir páskahelgina. Frá áramótum hefur stuðningurinn minnkað um 13.7 prósentustig sem er met í fylgishrapi.
Samanlagt fylgi stjórnarflokkanna þriggja er komið niður fyrir helming, niður í 47.6%.
Ríkisstjórnarflokkarnir hafa allir tapað fylgi frá kosningum sl. haust. VG hefur farið úr 16.9% í 13.9% - misst fimmta hvern kjósanda sinn, Framsókn er komin í 9.2% en hlaut 10.7% fylgi í kosningunum sem var það lakasta í 101 árs sögu flokksins! Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 24.5% fylgi en náði 25.3% í kosningunum sl. haust. Það var næst versta niðurstaða flokksins í sögunni. Einungis kosningarnar 2009 gáfu heldur lakari niðurstöðu.
Þarf það að koma á óvart að fylgi ríkisstjórnarinnar sé í frjálsu falli?
Nei, alls ekki. Ástæðurnar eru margvíslegar:
Lögbrot Sigríðar Andersen og þráseta hennar á ráðherrastóli þegar hún ætti að vera búin að víkja, stórskaðar. Sigríður hefur fengið á sig vantraust í þinginu og hangir áfram í embætti hálflömuð. Hún mun valda ríkisstjórninni áframhaldandi skaða og gæti fellt hana verði hún ekki látin víkja innan fárra mánaða. Oft veltir lítil þúfa stóru hlassi.
Verkleysi og svik við kjósendur einkenna störf flestra ráðherranna.
Vaxandi ólga í VG vegna þess hve lin Katrín Jakobsdóttir er við samstarfsflokkana, eins og t.d. vegna lögbrota Sigríðar Andersen. Þetta hefur einnig valdið klofningi í þingflokki VG og ólgu í forystunni.
Óbragð í munni Sjálfstæðismanna fer vaxandi vegna þeirrar niðurlægingar sem þeir upplifa af samstarfi við sósíalista sem leiða ríkisstjórnina. Það er stór biti að kyngja. Mörgum svelgist á.
Sífellt kemur betur í ljós að ríkisstjórnin er einungis bandalag um völd og kyrrstöðu. Ekki er ætlunin að hreyfa stjórnarskrána, landbúnaðarsukkið mun ekki minnka og sægreifunum verður þjónað.
Ekki verður tekist á við þann mikla vanda sem íslenska krónan er. Evra og ESB eru bannorð. Vaxandi einsngrunarhyggju gætir.
Öll rök hníga að því að fylgi þessarar ríkisstjórnar muni ekki gera neitt annað en að hrapa áfram. Enda er það fullkomlega rökrétt.
Rtá.