Auðmýkt á bílastæði við kringluna.

Dóttir Náttfara þvældist á milli verslunarmiðstöðva fyrir jólin. Eins og gengur og gerist var umferð mikil og fá bílastæði laus. Hún hringir í föður sinn og segir honum frá upplifun sinni þegar hún leitaði að bílastæði við Kringluna.

„Ég sé að ung kona er að fara inn í bíl sinn og setur í gang, ég stoppa bílinn og gef stefnuljós þar sem ég gef til kynna að ég ætli mér í þetta bílastæði. Allt í einu heyri ég flautað án hlés fyrir aftan mig, bíllinn er kominn alveg upp að mínum, ég lít í bílstjóraspegilinn og sé bílstjórann veifa hnefunum. Ég lét þetta ekki á mig fá og beið eftir að konan bakkaðu út úr stæðinu. Nú eru ca. 10 cm á milli bílanna og helvítis kallinn liggur á flautunni. Nú fékk ég nóg, setti bílinn minn í handbremsu með stefnuljósið á og stíg út úr bílnum og geng að bílnum fyrir aftan mig þar sem karlinn liggur ennþá á flautunni og veifar höndunum. Ég banka á rúðuna og hann skrúfar aðeins niður rúðuna og hreytir út úr sér ófögrum orðum, ég spyr hann hvort hann sé að flýta sér og hvort hann sjái ekki að ég sé að bíða eftir að leggja í stæðið sem er við það að losna. Maðurinn missir sig þá gjörsamlega og kallar mig öllum illum nöfnum og fullyrðir að fólk eins og ég eigi ekki að hafa bílpróf. Sem betur fer náði ég að halda mér rólegri á meðan hann hreytti þessum ófögru orðum út úr sér á sama tíma og hann varð blá-rauður í framan. Þegar hann hafði lokið máli sínu óskaði ég honum Gleðilegra jóla og vonaði að hann og fjölskylda hans myndu njóta samverunnar.“

Hann hætti að flauta og þagnaði um leið og ég gekk að bílnum mínum aftur, ég tók úr handbremsu, lagði í stæðið og gekk inn í Kringluna æðrulaus og þakklát fyrir lífið og tilveruna. .

 

Náttfari var stoltur af dóttur sinni fyrir sýnt æðruleysi.