Merkilegt er að sjá hvernig Sjálfstæðisflokkurinn yfirgefur hvert prinsippið af öðru án þess að flokksmenn hreyfi andmælum.
Á vakt flokksins þenst ríkisbáknið út á meðan engar tilraunir eru gerðar til að draga úr ríkisumsvifum á neinum stað. Ekkert er gert til að fækka ríkisstofnunum eða að sameina starfsemi þeirra. Árið 2013 þegar Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn mynduðu ríkisstjórn undir forsæti Sigmundar Davíðs þá varð til nefnd sem kom með 109 tillögur að sparnaði í opinberum rekstri, ekki síst með því að leggja niður ríkisstofnanir eða sameina og hagræða í starfsemi þeirra. Guðlaugur Þór Þórðarson dreif það verkefni áfram af mikilli eljusemi og var mjög stoltur af skýrslunni sem nefndin sendi frá sér. Einungis þrjár af þessum 109 tillögum hafa verið framkvæmdar. Skýrslan er ekkert annað en sorglegt dæmi um viljaleysi stjórnvalda til að sporna við útþenslu ríkisins. Þessi staðreynd er ekki síst skammarleg fyrir Sjálfstæðisflokkinn sem hefur haft þetta á stefnuskrá sinni síðustu 40 árin eða lengur. Þekkt er slagorð flokksins, BÁKNIÐ BURT. Það hefur á seinni árum orðið að hálfgerðu skammaryrði þegar báknið þenst út undir forystu flokksins.
Í skýrslu Guðlaugs Þórs og félaga átti m.a. að leggja Bankasýslu ríkisins niður enda um fullkomlega óþarfa stofnun að ræða. Hún er enn á sínum stað og kostar skattgreiðendur á annað hundrað milljónir króna á ári. Þá átti að sameina Póst og fjarskiptastofnun Samkeppniseftirlitunu og spara með því mörg hundruð milljónir króna á ári. Ekkert hefur verið gert í því. Hér eru einungis nefnd tvö dæmi af þeim rúmlega hundrað sem fjallað var um í skýrslunni. Nú er Guðlaugur Þór í ríkisstjórn og hefur vald sem ráðherra. Hér með er skorað á hann að ýta hressilega á eftir framkvæmd tillagnana góðu!
Menntamálaráðherra lofaði fyrir síðustu kosningar að fella niður virðisaukaskatt af bókum. Einnig hefur ráðherra lofað stuðningi við útgáfu lítilla fjölmiðla. Enn bólar ekkert á efndum en þess í stað á að búa til tvo sjóði í staðinn. Niðurfelling á VSK er einföld aðgerð og fjöldi fordæma. Nei, ekki er hægt að standa við það loforð en þess í stað á að stofna sjóð sem mun lúta pólitískt skipaðri nefnd sem mun útdeila styrkjum til bókaútgáfu eins og ölmusum og það eftir dúk og disk. Viljinn til að stofna pólitíska sjóði hefur alltaf verið ríkur hjá Framsókn en var það ekki lengi vel hjá Sjálfstæðisflokknum.
Og þá er komið að því að tala um risastóra sjóðasukkið.
Bjarni Benediktsson virðist hafa mikinn áhuga á að stofna svonefndan „auðlindasjóð“ sem virðist fyrst og fremst eiga að safna saman arðgreiðslum ríkisins af Landsvirkjun og svo á að ráðstafa úr þessum sjóði eftir einhverjum óljósum reglum eða geðþótta ríkisstjórna á hverjum tíma. Þegar fjármálaráðherra fjallar um þetta mál opinberlega talar hans eins og með þessu verði til einhver ný verðmæti. En það er auðvitað rangt. Landsvirkjun greiðir árlega arð til einanda síns sem er ríkissjóður Íslands. Arðgreiðslurnar hafa farið vaxandi og þær eru nýttar eins og aðrar tekjur ríkisins til að greiða útgjöld. Verði þessi arður lagður í sérstakan sjóð, þá verður hann ekki einnig nýttur til að greiða ríkisútgjöld. Þá mun vanta þessa milljarða sem ríkið verður að finna í formi meiri skatta eða með niðurskurði.
Engir nýjir fjármunir verða til. Þetta heitir að pissa í skóinn sinn. Nema þetta sé hugsað til að blekkja kjósendur og láta þá halda að verið sé að gera eitthvað til bóta í stjórnun ríkisfjármála.
Það eina sem gerist er að peningar sem ríkissjóður á renna ekki í ríkissjóð beint heldur í sérstakan sjóð í eigu þessa sama ríkissjóðs. Þá þarf að búa til nýja stofnun, með nýtt fólk í vinnu til að líta eftir þessum fjármunum og nýja stjórn til að líta eftir fólkinu sem fær vinnu hjá sjóðnum. Ekkert gerist annað en að kostnaður ríkisins eykst enn, báknið þenst enn méir út og sjóðasukk í boði Sjálfstæðisflokksins vex enn. Þvert á stefnu flokksins.
Svo verður skipuð pólitísk sjóðsstjórn til að valsa með þessa fjármuni og útdeila þeim í fyllingu tímans samkvæmt fyrirmælum ríkisstjórnar. Við getum treyst því að stjórnina mun skipa einhver fyrrverandi þingmaður VG, annar fyrrveradi þingmaður Framsóknar og svo tveir innvígðir og innmúraðir handlangarar Bjarna Ben úr Garðabæ. Annar þeirra verður formaður.