Atvinnurógur fyrrverandi forsætisráðherra

Landsmenn eiga sífellt erfiðara með að bera virðingu fyrir núverandi forystumönnum í stjórnmálum hér á landi. Það gildir því miður einnig um suma fyrrverandi forystumenn sem hafa hagað störfum sínum þannig, ýmist í valdatíð sinni eða síðar, að fólk á erfitt með að sætta sig við framkomu þeirra.

Sorglegustu dæmin um þetta hér á landi eru auðvitað Jóhanna Sigurðardóttir sem reyndist afleitur forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sem hrökklaðist frá vegna fjármálahneykslis í tengslum við Tortóla og svo Davíð Oddsson sem hefur fallið hratt af stalli eftir að hann lét af ráðherraembætti árið 2005. Þá lét hann skipa sig í stöðu seðlabankastjóra sem hann réði ekkert við, gerði Seðlabakna Íslands gjaldþrota og lagði sitt af mörkum til hrunsins árið 2008. Eftir það gerðist hann ritstjóri Morgunblaðsins þar sem hann hefur reynt að fegra brogaða sögu sína, m.a. með atvinnurógi um aðra eins og nýleg dæmi eru um. Þjóðin gaf Davíð einkunn þegar hann galt afhroð í forsetakosningunum í fyrra og hlaut einungis 13% atkvæða og lenti í fjórða sæti.

Þórður Snær Júlíusson á Kjarnanum íhugar nú að stefna þessum fyrrverandi forsætisráðherra fyrir dóm vegna atvinnurógs sem hann telur sig og miðil sinn hafa orðið fyrir frá hendi Davíðs. Því miður er það afar dapurlegt að maður sem gegnt hefur flestum helstu virðingarembættum þjóðarinnar sé kominn niður á þetta plan. Það er blátt áfram sorglegt að fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík, fyrrverandi forsætisráðherra og fyrrverandi seðlabankastjóri skuli ekki ná að halda virðingu sinni á efri árum og falla niður á þetta plan.

Í Reykjavíkurbréfi Moggans um liðna helgi fer Davíð mikinn og heggur á bæði borð í átt til annarra fjölmiðla á Íslandi. Ekki telst til tíðinda þó ráðist sé á RÚV með skítkasti og skætingi. Ástæðulaust er að staldra við þann hroða allan.

Hann reynir að hefja Morgunblaðið upp til skýjanna í samanburði við aðra íslenska fjömiðla. Hann virðist vera afar viðkvæmur fyrir því sem Þórður Snær benti á varðandi eignarhald sjávarútvegsmanna á blaðinu enda hefur Morgunblaðið þjónað hagsmunum þeirra leynt og ljóst síðan þeir tóku við rekstrinum eftir milljarða niðurfærslu skulda. Íslandsbanki felldi niður milljarða að kröfu sægreifanna til þess að þeir fengjust til að leggja hlutafé í reksturinn og freista þess að halda þessum erfiða og nánast vonlausa rekstri áfram.

Morgunblaðið hefur í tvígang fengið milljarðaniðurfellingu skulda hjá bönkum. Á núverandi verðlagi gæti fjárhæð niðurfelldra skulda vegna rekstrarins numið allt að sex milljörðum króna. Í ljósi þess hafa útsendarar og talsmenn Árvakurs ekki efni á að belgja sig mikið út og senda öðrum tóninn með hroka og yfirlæti.

 

Það þarf raunar ekki að koma á óvart að útgáfan þurfi milljarðastuðning í ljósi þess að áskrifendum hefur fækkað til mikilla muna. Hermt er að þeir séu komnir niður fyrir 20 þúsund en munu hafa verið um 60 þúsund um síðustu aldamót þegar Verslunarráðið stóð fyrir faglegu upplagseftirliti blaða og birti niðurstöður sínar opinberlega. Undan þessum staðreyndum svíður.

 

Á þeim tíma var sátt um Morgunblaðið meðal þorra landsmanna enda var ritstjórnin þá skipuð afburðamönnum á borð við Matthías Johannessen. Þá var blaðið þekkt fyrir sanngjörn og fagleg vinnubrögð.

 

Ef Kjarninn gerir alvöru úr því að fara í mál við Davíð Oddsson vegna meints atvinnurógs, verður afar forvitnilegt að fylgjast með framvindu málsins fyrir dómstólum. Ekki síst í ljósi þess að þá yrði fyrrum forsætisráðherra landsins dreginn fyrir dóm vegna háttsemi sem ætti að vera fyrir neðan virðingu hans.

 

Ætti að vera – ef allt væri með felldu.

 

 

rtá.