Jóhanna Sigurðardóttir fyrrum forsætisráðherra sagði nýlega í Fréttablaðsgrein að þjóðin hefði verið svikin af stjórnvöldum um nýja stjórnarskrá í sjö ár. Greinin var skrifuð í tilefni af sjö ára afmæli þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrármálið.
Samkvæmt lögum ber forsætisráðherra ábyrgð á málum er snerta stjórnarskrá lýðveldisins. Rúm átta ár eru nú liðin síðan stjórnlagaráð skilaði tillögu sinni með fullgerðu frumvarpi. Í tilefni af ummælum Jóhönnu Sigurðardóttur er vert að skoða hvernig þeir fimm forsætisráðherrar, sem verið hafa við völd á þessum tíma, hafa haldið á þessu mikla máli.
Jóhanna Sigurðardóttir virðist ekki hafa litið á frumvarp stjórnlagaráðs sem mikilvægt stjórnarmálefni
Stjórnlagaráð skilaði heildartillögu að nýrri stjórnarskrá í júlí 2011, eftir aðeins fjögurra mánaða starf. Jóhanna Sigurðardóttir var forsætisráðherra í hart nær tvö ár eftir það. Á þeim tíma lagði hún tillögurnar aldrei sjálf fram á Alþingi.
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis tók málið aftur á móti til skoðunar og birti efni tillögunnar í skýrslu til Alþingis. Eftir að hafa setið á frumvarpinu í heilt ár lagði meirihluti stjórnarflokkanna í nefndinni loks til þjóðaratkvæðagreiðslu eins og ráðið hafði mælt með ári fyrr. Síðan bað meirihlutinn um álit innlendra sérfræðinga. Það kom fyrst fram eftir þjóðaratkvæðið og þá varð til ný tillaga að stjórnarskrárfrumvarpi.
Meirihlutinn hafði rýmri tíma til að koma því fram á Alþingi en stjórnlagaráðið þurfti til að semja, ræða og samþykkja frumvarp sitt. En eftir að nýtt og breytt frumvarp lá fyrir óskaði meirihlutinn eftir tillögum erlendra sérfræðinga. Þegar þær bárust vildi meirihlutinn enn breyta nýlega breyttu frumvarpi stjórnlagaráðs. Í miðjum klíðum í annarri umræðu þegar enn voru tæpir tveir mánuðir í kosningar kaus meirihlutinn að hætta við málið. Það var aðeins tveimur dögum eftir að meirihlutinn lagði fram síðustu breytingatillögur sínar í 43 töluliðum og 55 undirliðum.
Í staðinn lagði meirihlutinn til að vísa málinu yfir á næsta kjörtímabil. Með öðrum orðum var ekki látið á það reyna hvort stjórnarandstaðan hefði afl eða þor til að stöðvað frumvarpið með málþófi.
Í 17. grein stjórnarskrárinnar segir að mikilvæg stjórnarmálefni skuli ræða á ráðherrafundi. Aðeins eitt dómafordæmi er til um túlkun ákvæðisins. Þar taldi Landsdómur að það hefði verið brot á þessari grein að Geir H. Haarde forsætisráðherra lagði ekki fyrir ríkisstjórnina skýrslu um stöðu bankanna, sem reyndar var aldrei til, en dómurinn taldi að hefði átt að skrifa.
Tillögur stjórnlagaráðs voru sannarlega til. Að gefnu fordæmi Landsdóms er alls ekki augljóst, að heilsteypt og fullbúið frumvarp stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá fyrir Ísland hafi verið undanþegið þeirri skilgreiningu að teljast mikilvægt stjórnarmálefni. En Jóhanna Sigurðardóttir virðist ekki hafa litið svo á að frumvarpið hafi verið mikilvægt stjórnarmálefni í skilningi stjórnlagafræðanna.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hvarf úr embætti áður en á reyndi
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson skipaði nýja stjórnarskrárnefnd eftir smá tímatöf. Hún skilaði tillögum um nokkrar afmarkaðar breytingar. Segja má að ekki hafi reynt á vilja forsætisráðherra til að ljúka afgreiðslu þeirra því að hann hvarf óvænt úr embætti.
Sigurðir Ingi Jóhannsson sýndi frumvarp nefndar Sigmundar Davíðs
Sigurður Ingi Jóhannsson tók tillögurnar frá nefnd Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og flutti þær sjálfur sem þingmannafrumvarp eftir að stjórnin ákvað að efna til kosninga. Um það var engin samstaða. Hann tók málið vissulega í eigin hendur en það var meira til að sýnast.
Vandalaust að lýsa aðkomu Bjarna Benediktssonar að málinu
Aðkomu Bjarna Benediktssonar að stjórnarskrármálinu er vandalaust að lýsa. Hann hafðist ekkert að.
Katrín Jakobsdóttir hefur ein tekið málið í eigin hendur í fullri alvöru
Katrín Jakobsdóttir er eini forsætisráðherrann á þessu átta ára tímabili sem tekið hefur málið í eigin hendur í fullri alvöru. Frá formlegu sjónarmiði hefur hún gefið þessu stóra viðfangsefni aukið vægi með því að stýra því sjálf og kalla til formenn allra flokka á Alþingi. Jafnframt ákvað hún að skipta vinnunni í tvo áfanga á tveimur kjörtímabilum. Þó að ekki sé á vísan að róa er sú leið líklegri til árangurs en að hafa öll álitaefnin undir í einu.
Efnislega hefur forsætisráðherra hins vegar ekki teygt sig neitt í átt til Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata í mikilvægustu efnisatriðunum sem eru til umfjöllunar. Í auðlindamálum og varðandi fjölþjóðlegt samstarf virðast formenn VG, Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Miðflokks ekki vera tilbúnir að gera neinar breytingar sem hreyfa við óbreyttu ástandi.
En hvað sem efnislegum ágreiningi líður er ljóst að Katrín Jakobsdóttir hefur sýnt að hún er reiðubúin til þess að halda sjálf á þessari heitu kartöflu stjórnmálanna til áratuga. En það er eins og Jóhanna Sigurðardóttir hafi á hinn bóginn alltaf litið svo á að einhverjir aðrir ættu að halda á henni. Alltént lét hún ógert að leggja frumvarp stjórnlagaráðs sjálf fyrir ríkisstjórn og Alþingi og leita eftir samstöðu við forystumenn annarra flokka, sem þingmeirihlutinn, sem hún stýrði, taldi þó óhjákvæmilegt þegar á reyndi.