„Ég myndi frekar vilja deyja en að lifa þennan vetur. Ekki bara af því ég er heimilislaus heldur út af neyslunni og mörgu öðru,“ segir Atli Sæmundsson í viðtali í Fréttablaðinu í dag.
Viðmót, sem eru samtök um mannúðlega vímuefnastefnu á Íslandi, stóðu fyrir setuverkfalli í neyðarskýlinu á Granda í gær. Samtökin krefjast þess að sett verði á laggirnar úrræði þar sem karlmenn án heimilis geti verið á daginn. Í Fréttablaðinu í dag er rætt við Atla og Ragnar Erling Hermannsson sem eru báðir kvíðnir vegna komandi vetrar.
„Við erum bara að kalla eftir hjálp, það er það sem þetta snýst um,“ segir Ragnar við Fréttablaðið. Setuverkfallið fór fram í neyðarskýlinu á Granda sem er úrræði fyrir heimilislausa karlmenn á vegum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Þar er opið frá klukkan fimm seinnipartinn og til tíu á morgnana alla daga.
Félagar í Viðmóti krefjast þess að Reykjavíkurborg taki ábyrgð á því að það sé ekki starfrækt dagsetur fyrir heimilislausa karlmenn á daginn og komi slíku á laggirnar strax, annað hvort sjálf eða í samstarfi við aðra. Þá fara samtökin fram á það að öllum neyðarskýlum í Reykjavík sé ekki lokað yfir daginn sé veðurviðvörun gul eða hærri. Nú er miðað við að loka ekki ef viðvörun vegna veðurs er appelsínugul eða rauð.
Eins og við er að búast snýst vandamálið um fjármagn, að sögn Hrafnhildar Ólafar Ólafsdóttur, deildarstýru í málaflokki heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Hún segir að kröfur Viðmóts séu skiljanlegar.
Þetta snýst um peninga, því miður,“ segir Hrafnhildur. „Það er nú þegar ekki til fjármagn fyrir því að hafa opið þegar það er appelsínugul eða rauð viðvörun en við gerum það samt. Það þarf að manna vaktina og það kostar peninga,“ segir hún en dagsetur fyrir konur er rekið af Hjálparstarfi kirkjunnar.
„Þetta er erfitt fyrir okkur en það er líka erfitt fyrir starfsfólkið og þau sem vilja hjálpa okkur að geta og/eða mega það ekki,“ segir Ragnar. „Þetta eru allt algjörar perlur og reyna allt sem þau geta en þurfa að vinna eftir ómannúðlegum reglum sem fólkið á bak við tjöldin setur,“ bætir hann við.
Nánar er rætt við Ragnar og Atla á vef Fréttablaðsins.