Atkvæði hverra er sdg að kaupa sér?

 

Ein helsta ástæða þess að íslenska þjóðin gefur ríkisstjórninni selbita í hvert skipti sem fylgiskannanir eru gerðar, er að ekki ríkir traust á milli þings og þjóðar.

Við trúum því t.d. alls ekki þegar stjórnin þakkar eigin verkum allan hagvöxtinn hér á landi. Allan!

En ef stjórnin segði af meiri yfirvegun: Hagvöxtinn má að mestu leyti þakka uppgangi í ferðaþjónustu, en ekki hefur skaðað að... þá myndum við sennilega hlusta betur eftir orðum stjórnarliða og kannski viðurkenna þeirra góðu verk fremar.

Yfirgripsmikill skortur virðist sumsé vera á örlæti á þessu skeri nú um stundir.  Stjórnin er svo frek að hún þakkar sér alltaf allt sem vel gengur. Sparkar á sama tíma í fólk úr öðrum flokkum þegar eitthvað bjátar á og kennir þeim um allt sem miður fer. Afar þreytandi orðræða. Gerir traust að engu.

Þegar kemur að viðhorfum landsmanna til einstakra ráðherra verður þetta traust  jafnvel enn  veikara. Eitt af því sem gerði marga Íslendinga dapra þennan morguninn var frétt Moggans um að áfram skuli böðlast í þá átt að reisa enn eitt álverið hér á landi. Nú við Hafursstaði í Skagabyggð.

Á sama tíma vantar alla orku fyrir verið. Og það eru blikur á lofti í áliðnaði heilt yfir, sem setja stór lógísk spurningamerki við svona áform. Með vaxandi hagsmunum í ferðaþjónustu og sumpart breyttu gildismati margra er starfsemi stóriðju nú meira deilumál í huga landsmanna en nokkru sinni fyrr. Fleiri mótrök mætti nefna gegn þessari hugmynd. Maður gæti skrifað í marga daga um öll álitamálin sem kvikna við lestur svona fréttar.

Á samfélagsmiðlum í dag hefur komið fram ein skýring, að vegna vondrar útkomu í fylgiskönnunum sé Framsóknarflokkurinn að kaupa sér atkvæði á Norðvesturlandi. Er þá vísað til þess hvernig forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hefur óhræddur skipað sér á bekk með stuðningsmönnum álversins, skyldur forseta vorum sem hefur miklar mætur á Kína, honum Ólafi Ragnari Grímssyni.

En Ólafur Harðarson stjórnmálafræðiprófessor sagði í Kvikunni á Hringbraut um daginn að sennilega væri sú tíð liðin að kjósendur greiddu atkvæði eftir eigin pyngju. Að það að kjósa snerist nú orðið um margt fleira. Sem leiðir hugann að þeirri spurningu hvort þeir sem búa í grennd við Hafursstaði hafi nokkurn áhuga á að vinna sjálfir í þessu álveri hvað þá að álframleiðsla verði hlutskipti barna þeirra. Ný rannsókn sýnir að á svæðum þar sem menntun hefur orðið undir er svarið meiri menntun, ekki aukið frumstæði.

Mörg munum við myndina af forsætisráðherra, SDG, sem mætti gleiðbrosandi til leiks þegar viljayfirlýsing var í fyrsta skipti undirrituð við Kínverjana vegna Hafursstaða sl. sumar. Það var ekki auðvelt að sjá þá að forsætisráðherra væriað gæta hagsmuna íslenskra borgara vítt og breitt með slíkum stuðningi. Augljóst er aftur á móti að Kínverjar hafa mikinn hag af því að koma sér fyrir sem víðast í heiminum. Nú eru þeir að falast eftir auknum ítökum hér, ekki alveg ósvipað og þegar nýlenduveldin skáru sér sneiðar að vild í Afríku fyrr á tímum. Stundum auðvelduðu veikir foringjar ríkjanna þeim vinnuna.

Samandregið er staðan þessi: Horfur í áliðnaði eru vondar. Það vantar alla orku fyrir þetta ver. Svarið við stöðnun á tilteknum landsvæðum er sagt aukin menntun en ekki frumstæð framleiðsla. En þrátt fyrir þetta allt sjá SDG og ÓRG mikla hvata í því að kínverskir fjárfestar og skagfirskir dansi nú saman í einni sæng?

Hvað vita þeir tveir sem við almennir borgarar ekki vitum?

(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á hringbraut.is)