Ástin, vitið og mennskan

“Ég veit ekki nema það sé bábilja að Íslendingar séu eitthvað sérlega góðir við börnin sín.”

Svo mælti prófessor í sálfræði sem ég varði eitt sinn kvöldstund með.

“Sem er kannski vegna þess að við erum ekki nógu góð við sjálf okkur,” bætti prófessorinn við.

Ég hlustaði með athygli þegar hann vísaði til sögunnar máli sínu til rökstuðnings. Þegar börn voru fyrst og fremst ódýrt vinnuafl og fullkomlega réttlaus. En þannig var það víst víða en þó ekki alls staðar. Mannfræðingar hafa sem dæmi skrifað lærðar greinar um forn samfélög þar sem komið var fram við börn eins og dýrustu djásn, ekki síst andlega, og tengdist ekki alltaf ríkidæmi svæðanna. En það er frekar tímaskeiðið sem orðið hefur síðan Íslendingar brutust úr fjötrum fátæktar og beinlínis til velmegunar og ríkidæmis sem prófessorinn hafði í huga. Efnishyggjan hefði leitt til þess að eins vel væri hugsað um þau í veraldlegu tilliti og vænta mætti, en þar réði e.t.v. gamaldags hugsun. Kannski gæfu fæstir foreldrar sér tíma í langar og andlega seðjandi samverustundir með börnum sínum, kannski vantaði upp samtalið um mikilvægustu málin og framtíðarsýnina. Andleg gildi yrðu enn undir á kostnað efnishyggju sem ætti sér lúmskar rætur í afkomuótta langt aftur í tíma harðæranna hér á landi.

“Það er sumt sem bendir til að við séum andlega enn sama gamla vertíðarþjóðin, þjóð sem horfir ekki fram heldur hugsar mest um líðandi stundu. Að við byggjum á úreltri hugsun, einblínum á og kennum krökkunum okkar hvernig auðveldast verði að nálgast feng líðandi stundar, sumt bendir til að þessi viðhorf erfi börnin okkar, að áherslurnar miðist við augnablikið og þörfina á að seðja svangan maga, í hungursneyð er minna pláss en ella fyrir góðar hugmyndir,” bætti prófessorinn við.

Ég fór að hugsa um stjórnmálin hér innanlands í ljósi þessarar orða. Foreldravald heimilanna mætti kalla stjórnmál heimilanna. Stundum er rætt að íslenska þjóðin eigi ekki betra skilið en þá óframsýnu flokka sem hún hefur kosið til að stýra landinu, þeir hafa dreift gæðunum ójafnt og eftir úreltri mælistiku. Flokkarnir hugsa meira um eigin rass en hag almennings og þannig er það ekki síst í hungursneyð. Í afkomuóttanum lætur siðvitið undan villidýrinu í okkur, sjálfsbjargarhvötin er sumpart dýrslegt afl. Samtrygging útvalinna er fölskvalaust útskýrð sem helstu rök fyrir þátttöku í stjórnmálaflokkum, að komast að gnægtaborði kjötkatlanna. Hinir óháðu og sjálfstæðu verða oft að láta sér duga brauðmolana sem falla af borði þeirra sem eru sérfræðingar í að lágmarka líkurnar á eigin hungursneyð. Oft með því að seilast í forða annarra.

Kaldhæðni örlaganna er að þrátt fyrir mennta- og upplýsingabyltingu er gild spurning, árið 2016, hvort veraldlegt veganesti barns sem fæðist í dag sé best tryggt með því að senda það kornungt í framsóknar- eða sjálfstæðiskólann og láta öflin heilaþvo það í því skyni að það komist þá betur af. Samt tönnlast samfélagið - a.m.k. í tylliræðum - á mikilvægi menntunar. Í nágrannalöndunum eru menntun og dugnaður lykilatriði í að hámarka lífsbjargir, bæði andlegar og veraldlegar. En er það svo hér? Íslensk námslán eru þungur baggi miðað við það sem þekkist á hinum Norðurlöndunum, litlu virðist skipta hvort nemendur standa sig framúrskarandi vel eða ekki. Miðlungsnemendur sem tengjast valdaflokkunum eru teknir fram yfir hina framúrskarandi, þá sem eru ekki í klíkunni. Hér er klíkuskapur í flestu. Sá klíkuskapur byggir kannski enn á skorthugsun, þeirri hugsun að hungursneyð kunni að skella á landsmönnum á morgun. Þá muni þeir einir lifa af sem eiga mesta forðann.

Nýja framtíðarstefnu vantar  í pólitíkina, atvinnulífið, menninguna og uppeldi barnanna okkar. Vertíðarþjóðin í norðri þarf að þokast á næsta stig. Við þurfum að taka umræðu um að plana, bæta, staldra við gagnrýnar spurningar, staldra við ástina, vitið, mennskuna og þá ekki síst sköpunina. Það ef ótækt að sitja uppi með stjórnarflokk sem kallar sig The Progressive Party upp á enska tungu en sér þó fremur lítinn hag í prógressívri umræðu og bannað hana jafnvel eða bregst afar hart við henni. Foringi hinna prógressívu á þingi kallar það einföldun regluverks að sölsa undir sig vald sem dreifðist áður meðal fagstofnana. Geðþótti litar athafnir eins og að allt snúist enn um að komast yfir sem mest verðmæti og forráð á sem skemmstum tíma. Fæðuöryggisumræðan er vísbending um að óttinn við hungursneyð vomi enn yfir. Óttinn við útlönd vomir sem aldrei fyrr yfir forsætisráðherra vorum en þó eru hin sömu útlönd og hann óttast svo mjög lífæð okkar í möguleikum til velmegunar. Viðskipti við útlönd, hugmyndir og menntun Íslendinga í útlöndum lögðu grunn að okkar velmegun og ósjálfbær verðum við með öllu án viðskipta og stjórnmálasabands við alþjóðasamfélagið.

Erum við nógu vitur við börnin okkar, erum við nógu vitur gagnvart sjálfum okkur? Spurningar prófessorsins lifa. Réttlætum við óréttlæti heimsins, skortinn á siðvitinu, misskiptinguna hér innanlands út frá villimennskunni sem hrærist í þeim sem er svangur eða hræddur um að hann verði svangur á morgun?

(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á hringbraut.is)