Það er bara eitt sem sigrar gagnrýna hugsun.
Það er ástin.
En þetta tvennt verður að fara saman. Og ef slatta af óeigingirni er bætt út í kokteilinn skapast vísir að góðum heimi.
Ég tók viðtal í dag við ungan Íslending, búsettan í París. Hringbraut sagði fyrst fjölmiðla þá frétt sem e.t.v. tengir okkur hvað sterkast við voðaverkin, það má telja kraftaverk að eiginkona Íslendingsins, Caroline, skyldi lifa af skotárásina í gærkvöld. Hún fékk tvö skot í sig þar sem hún sat með vinkonu sinni á kaffihúsi og átti sér einksis ills von. Það var gefandi að ræða við þennan unga og sterka Parísar-Íslending sem á unga og sterka konu. Hann fór ekki í árásarhaminn þótt eiginkona hans væri í aðgerð á spítala meðan við ræddum saman.
Þessi ungi maður, Finnbogi Rútur Finnbogason, sendi ekki bara okkur Íslendingum réttu skilaboðin með brýningu sinni um að nú væri rétti tíminn til að draga andann djúpt, hann sendi umheiminum öllum réttu hvatninguna, eflaust býr hann að því að hafa numið jafnt heimspeki sem alþjóðastjórnmál til meistaragráðu.
Ef fórnarlömb árásanna geta á ögurstundu blandað þann kokteil sem getið er að ofan – hljótum við að geta það líka.
Heimurinn mun þurfa ást, fjör og gagnrýna hugsun til til að bregðast við hryllingi hryðjuverkanna. Það er kannski ögn ofmælt sem segir í textanum: „All we need is love“. En sannarlega erum við hol og tóm án ástarinnar. Holið getur brotist út í hreinni illsku sem réttilega má kalla ómennsku. Ef svara á hatri með hatri á veröldin sér enga von.
Vonin felst í sammannlegum kærleika.
Viðtalið sem vitnað er til má lesa hér.
(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á Hringbraut)