Í þættinum Afsal, sem sýndur var á Hringbraut í gærkvöld voru teknar fyrir fyrirspurnir frá áhorfendum um fasteignamál. Meðal annars var spurt um rakamælingar á eignum til sölu og almenna ástandskoðun, sem kaupendur gætu þá fengið skýrslu um, áður en eign er keypt.
Ásdís Valsdóttir og Guðrún Antonsdóttir, löggiltir fasteignasalar segja þetta ekki nógu algengt á Íslandi. Vissulega sé hægt að fara fram á skýrslur og úttektir fyrir kaup, en það sé þá seljandinn sem meti það hverju sinni hvort hann sé tilbúinn til að leggja í þann kostnað.
Báðar segjast mæla með því að fólk leggi frekar í þennan 60 til 70 þúsund króna kostnað sem geti fylgt, því eignarkaup nemi oft tugum milljóna króna og þessi kostnaður geti því verið vel þess virði. Þær segja samt að langbest væri ef reglurnar hér á landi væru sambærilegar þeim sem gilda í nágrannalöndum. Þar er það víðast hvar skilyrði, að eignir séu ástandsskoðaðar, áður en þær eru settar í sölu.
Í þættinum, sem sjá má hér á vef stöðvarinnar, var rætt við kaupendur og seljendur. Þar hitti Rakel Sveinsdóttir, umsjónarmaður þáttanna fyrir hjón í Kópavogi, sem nú leita af eign í Vallarhverfinu í Hafnarfirði. Þá heimsótti Rakel seljanda í Hafnarfirði sem er að selja hús frá árinu 1913, sem hefur verið gert upp.
Þátturinn er endursýndur í allan dag og um helgina.