Nýbirt skoðanakönnun Maskínu sýnir að fylgi Samfylkingarinnar heldur áfram að skreppa saman. Áætlað fylgi Samfylkingar er komið niður í 12,8 prósent en var 17,9 prósent fyrir nokkrum vikum. Það var reyndar áður en flokkurinn tók að birta framboðslista sína sem virðast ekki hafa vakið jákvæða strauma meðal kjósenda.
Talsvert hefur gengið á innan Samfylkingarinnar á síðustu tveimur mánuðum varðandi val á frambjóðendum. Átök hafa leitt til sárinda og illdeilna sem hafa sannarlega ekki hjálpað til. En meginskýringin á dalandi fylgi flokksins er stefna hans sem virðist vera á hraðri leið til vinstri. Þá hefur Logi Einarsson formaður komið klaufalega fram og verið með yfirlýsingar sem gera flokknum erfitt fyrir. Hann hefur marglýst því yfir að hann muni alls ekki vilja vinna með Sjálfstæðisflokknum eða Miðflokki eftir kosningar. Þetta þykir ekki bera vott um mikil pólitísk klókindi og margir telja að flokkurinn sé að dæma sig úr leik með þessum yfirlýsingum. Allir virðast vera tilbúnir að vinna með öllum ef ráðherrastólar eru í boði. Samfylkingin er að skáka sér út í horn með yfirlýsingum sínum.
Þá þykir vinstri slagsíða vera á málflutningi flokksins og einnig á vali frambjóðenda. Oddný G. Harðardóttir, formaður þingflokks Samfylkingar, er sá alþingismaður sem leggur til meiri skattahækkanir en nokkur annar þingmaður. Hún telur skattahækkanir vera allra meina bót og vill ganga mjög langt á því sviði á sama tíma og flestir þingmenn vara við því að íþyngja þjóðinni með auknum sköttum. Samfylkingin talar einnig fyrir aukinni skuldsetningu ríkissjóðs og fjölgun opinberra starfsmanna sem flestum hugsandi mönnum þykir galin hugmynd. Samfylkingin vinnur sér ekki virðingu með stefnu sinni eins og mælist nú í skoðanakönnunum.
Val frambjóðenda á lista flokksins hefur tekist misjafnlega og í sumum tilvikum beinlínis illa. Stuðningsmenn Samfylkingar í Reykjavík eru klofnir í afstöðunni til uppstillingar á framboðslistana þar. Ágústi Ólafi Ágústssyni Alþingismanni var ýtt út og þrír nýir frambjóðendur eru í efstu sætum listanna. Rósa Björk Brynjólfsdóttir gekk úr Vinstri grænum og tók annað sætið á lista flokksins í öðru Reykjavíkurkjördæmanna. Þá hreppti Kristrún Frostadóttir efsta sæti en hún hefur ekki verið áberandi áður í stjórnmálastarfi. Helga Vala Helgadóttir leiðir hinn listann eins og í síðustu kosningum. Þá kemur Jóhann Páll Jóhannsson, starfsmaður Samfylkingarinnar, inn í annað sæti. Hann er einkum þekktur sem blaðamaður á Stundinni þar sem hann hefur þótt harður í dómum sínum um menn og málefni. Duglegur ungur maður, áberandi vinstri sinnaður og að margra mati í röngum flokki svo fremi að Samfylkingin teljist ennþá miðjuflokkur.
Í Suðvesturkjördæmi var Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur og Alþingismaður færður úr efsta sæti í annað sætið til að rýma fyrir Þórunni Sveinbjarnardóttur sem snýr nú aftur í stjórnmálin eftir alllangt hlé. Þórunn er vel virt af þeim sem þekkja hana. Það á eftir að koma á daginn hvernig henni vegnar í baráttunni nú. Ýmsum þótti illa farið með Guðmund Andra eftir áfallalausan feril á þingi síðustu fjögur árin. Hann hefur þó tekið þessum breytingum af yfirvegun.
Þó könnun Maskínu ná ekki til margra gefur hún engu að síður vísbendingu um að mikið virðist vera að hjá Samfylkingunni. Vinstri vegferð flokksins er þegar tekin að bitna á fylgi hans.