Ásmundur Einar Daðason, ráðherra Framsóknarflokksins, hefur nú sent frá sér yfirlýsingu og svarað tilhæfulausunum ásökunum í sinn garð vegna ágreinings um erfðamál í fjölskyldu föður hans. Ásmundur upplýsir í yfirlýsingunni að hann hafi stutt föður sinn í ágreiningi innan fjölskyldunnar í upphafi en hafi algerlega sagt sig frá afskiptum af málinu strax á árinu 2007. Það er fyrir 16 árum.
Því er það einkennilegt að frænkur Ásmundar, sem nú fara af stað með ávirðingar og sín sjónarmið eftir allan þennan tíma, beini spjótum sínum að Ásmundi sem ekki er aðili að þessu máli og hefur ekki komið nálægt því í 16 ár.
Skýringin á því er sennilega nokkuð augljós. Frænkurnar vilja ná eyrum fjölmiðla og fá í gegnum þá útrás fyrir reiði sína og sjónarmið. Þá er gott að reyna að draga þjóðþekktan mann inn í málið til að freista þess að beina athygli að því. Ráðherrann er vitanlega þjóðþekktur þótt þær systur séu það ekki frekar en þeir bændur í Dölunum sem deila um skiptingu föðurarfs. Hver hefur áhuga á fjölskylduerjum af þessu tagi vestur í Dölum? Trúlega mjög fáir út fyrir innsta hring. Miklu frekar er að athygli veki ef stjórnmálamaður á í hlut. Vandi systranna er bara sá að Ásmundur Einar er ekki aðili að þessu máli þótt faðir hans sé það. Vandséð er hvernig unnt er að rugla því saman.
Málflutningur systranna er öfgakenndur og býsna ótrúverðugur. Eftir að Ásmundur hefur gert grein fyrir því að honum sé málið óviðkomandi og hann hafi engin afskipti haft af því í 16 ár fellur málatilbúnaður systranna um sjálfan sig og hlýtur að dæmst sem ofstæki í fjölskyldudeilum sem á ekkert erindi við fjölmiðla eða fólkið í landinu.
Eina sem eftir stendur er það að þær hafa ráðist að lögreglunni með ávirðingum. Lögreglunni í Borgarnesi er gefið að sök að hafa ekki sinnt kærum og því er beinlínis haldið fram að embættið vinni ekki faglega heldur taki við fyrirmælum frá valdhöfum. Þær segja til samanburðar að þetta eigi ekki við um lögregluembættið á Blönduósi, einungis í Borgarnesi sem vinni með hlutdrægum hætti þeim í óhag. Hér er um alvarlegar ásakanir að ræða og ekki gengur að láta þeim ósvarað.
Ríkislögreglustjóri verður að rannsaka þessar ásakanir og svara þeim síðan með viðeigandi hætti. Þá verður að ætlast til þess að nýskipaður dómsmálaráðherra, Guðrún Hafsteinsdóttir, láti málið til sín taka. Hún getur ekki horft aðgerðarlaus á að lögregluembætti sé borið þungum sökum. Hún verður að fá botn í það hvort ásakanirnar eigi við rök að styðjast eða séu tilhæfulausar, en raunar bendir fátt í málatilbúnaði systranna til þess að meiri grundvöllur sé að baki ásakana á hendur lögreglunni en á hendur Ásmundar Einars
Niðurstaða í því máli verður engu að síður að fást og dómsmálaráðherra verður að krefjast þess þó að umrætt upphlaup systranna virðist einungis vera stórt vindhögg.
- Ólafur Arnarson