Yngsti þingmaður Sjálfstæðisflokksins gerði þau mistök að láta tefla sér fram í umræðu um frjálslyndi. Hún hefur gert veikburða tilraun til að svara þrumuræðu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur formanns Viðreisnar sem hún flutti um liðna helgi.
Þorgerður Katrín skaut föstum skotum á Sjálfstæðisflokkinn og virðist hafa komið við afar veikan blett á flokknum þegar hún talaði um að flokkurinn hafi horfið af braut frjálslyndra sjónarmiða sem einkenndu hann áður. Sjálfstæðisflokkurinn hefur yfirgefið meginstefnu sína og einkennist nú einkum af hagsmunagæslu fyrir sægreifa og bændur. Flokkurinn myndar ríkisstjórn með sósíalistum og undir forystu þeirra í þeim eina tilgangi að hanga við völd til að geta litið eftir þröngum hagsmunum hinna fáu og ríku gegn hagsmunum neytenda og skattgreiðenda.
Áslaug Arna reynir að halda því fram að Sjálfstæðisflokkurinn standi fyrir skattalækkanir en flestir aðrir flokkar fyrir skattahækkanir. Út frá því dregur hún þá röngu ályktun að Sjálfstæðisflokkurinn sé frjálslyndur skattalækkanaflokkur sem vilji minnka ríkisumsvif en Viðreisn aðhyllist skattahækkanir og aukin ríkisumsvif.
Þetta er mikill misskilningur hjá þingmanninum unga. Sjálfstæðisflokkurinn er skattahækkanaflokkur og hefur svikið öll loforð um skattalækkanir, eins og reyndar svo mörg önnur kosningaloforð. Tökum nýleg dæmi: Núverandi ríkisstjórn sem Áslaug Arna styður er nýbúin að hækka fjármagnstekjuskatt um 10%, úr 20% í 22%. Þetta er skattur sem beinist gegn sparnaði landsmanna og leggst einkum þungt á eldri borgara sem hafa sparað og barist í gegnum lífið, fólkið sem hefur haldið samfélaginu gangandi með skattgreiðslum til þess meðal annars að ungt fólk eins og Áslaug Arna hafi getað aflað sér menntunar og fengið viðunandi þjónustu í samfélaginu. Áslaug er rétt nýbyrjuð að leggja eitthvað til í sameiginlega sjóði enda rétt komin út úr skóla.
Núverandi ríkisstjórn hefur auk þess hækkað óbeina skatta eins og skatt á eldsneyti, díselskatt, þá hefur hún þrefaldð gistináttagjald á ferðaþjónustu og nýlega tilkynnti hún um að komugjöld yrðu tekin upp sem munu einnig íþyngja ferðaþjónustunni. En ríkisstjórnin hefur ekki lækkað neina skatta – hvorki beina né óbeina. Fjármálaráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, hækkar skatta en lækkar þá ekki.
Fyrr í dag var svo haft eftir Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra og formanni sósíalista, að hún vildi hefja vinnu við skattabreytingar sem gengju m.a. út á að taka upp nýtt og enn hærra skattþrep í tekjuskatti og þá vill hún innleiða auðlegðarskatt að nýju. Miðað við reynslu kjósenda af kosningaloforðum Sjálfstæðisflokksins og efndum þeirra, má gera ráð fyrir að flokkurinn láti sósíalistann í forsætisráuneytinu berja sig til hlýðni varðandi þessar skattahækkanir. Allt fyrir ráðherrastólana.
Þá er rétt að vekja athygli á skýrslu sem ASÍ birti í ágúst 2017 þar sem kom fram að skattbyrði hefur aukist í öllum tekjuhópum á Íslandi frá árinu 1998 til loka árs 2016. Á þessu 18 ára tímabili hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið 14 ár í ríkisstjórn og allan þann tíma haft fjármálaráðherrann og skattamálaráðuneytið.
Þessar staðreyndir hafa greinilega farið framhjá Áslaugu Örnu. Hún hefur engar forsendur til að tala um flokk sinn sem frjálslyndan. Það er nákvæmlega engin innstæða fyrir þeirri fullyrðigu. Hún er röng. Sjálfstæðisflokkurinn er skattheimtuflokkur sem stendur vörð um báknið. Gæti þess vegna tekið upp kjörorðið BÁKNIÐ KJURRT!
Rtá.