Ásmundur Friðriksson lagði drög að pólitísku sjálfsmorði sínu í Kastljósi í gærkveldi. Hann var fenginn til að gera grein fyrir sjálftöku sinni á aksturspeningum frá Alþingi sem hefur verið til umræðu síðustu daga. Sýnt hefur verið fram á að þingmaðurinn hefur sennilega oftekið um 2,5 milljónir króna í greiðslum af þessu tagi frá Alþingi á ári – skattfrjálst. Hann tók við 4,6 milljónum króna með þessum hætti á síðasta ári. Fréttamaður Kastljóss benti Ásmundi á það að samkvæmt því akstursmagni sem Ásmundur hefur lagt fram og við skrifstofu Alþingis gæti hann hafa ekið 37 sinnum hringinn í kringum landið á þjóðvegi eitt á ári!
Þingmaðurinn gerði ekki mikið með þá gagnrýni sem fram er komin. Helst er á honum að skilja að sjálftaka hans á 2,5 milljónum króna af ríkisfé á ári – skattfrjálst – sé fjölmiðlum að kenna, einkum RÚV. Vegna þess að fólki ofbýður umgengni hans um opinbera fjármuni og flestir fjölmiðlar hafa fjallað um málið, þá lítur hann á það sem “einelti”. Auðvitað telur Ásmundur við hæfi að breitt sé yfir spillingu kjörinna fulltrúa Sjálfstæðisflokksins eins og Morgunblaðið og Viðskiptablaðið gera. En sem betur fer eru mun fleiri fjölmiðlar en þeir starfandi í landinu og þess vegna er haldið uppi frjálsri fjölmiðlun sem gagnrýnir sukk Alþingismanna úr öllum flokkum. Einnig Sjálfstæðisflokknum.
Ásmundur gerði mörg mistök í Kastljóssviðtalinu. Hann sagði ósatt, hann sýndi hroka, hann kom upp um spillt hugarfar sitt, hann reyndi að kenna fjölmiðlum um sviksemi sína og hann reyndi að gera sig að píslarvotti með ótrúverðugum hætti.
En mestu mistökin gerði hann þegar hann spurði hvort fólk vildi að lýðræðið ætti að fá að virka með því að þingmenn kæmu af öllu landinu eða hvort einungis ætti að velja “101-ROTTUR” úr Reykjavík, eins og hann komst svo smekklega að orði.
Varla munu félagar hans úr Sjálfstæðisflokknum sem búa í 101 Reykjavík kunna honum miklar þakkir fyrir þessa afgreiðslu. Nefna má mörg dæmi um áberandi sjálfstæðismenn sem falla undir skilgreiningu Ása: Sigríður Andersen dómsmálaráðherra og Kjartan Magnússon borgrfulltrúi búa á Hávallagötu, Áslaug Friðriksdóttir borgarfulltrúi býr á Skólavörðustíg og sjálfur Eyþór Arnalds boðflenna úr Höfða býr á Öldugötu. Öll í 101 Reykjavík.
Rtá.