Í liðinni viku samþykkti bæjarstjórn Seltjarnarness uppbyggingu þjónustuíbúða fyrir Ás styrktarfélag. Sex af sjö bæjarfulltrúum samþykktu úthlutun lóðar fyrir Ás styrktarfélag við Kirkjubraut. Einn bæjarfulltrúi var á móti og vildi ekki styðja við starf þeirrar sjálfseignarstofnunar sem vinnur að hagsmunamálum fólks með þroskahömlun. Þar var um að ræða sjálfan bæjarstjórann, Ásgerði Halldórsdóttur. Allir aðrir bæjarfulltrúar stóðu að þessari ákvörðun, þrír út minnihluta og þrír úr Sjálfstæðisflokki. Ásgerður er leiðtogi Sjálfstæðisflokksins en kaus á móti félögum sínum.
Í dag veitir Ás styrktarfélag hátt á fjórða hundrað manns þjónustu í formi búsetu, dagþjónustu og vinnu. Starfsmenn félagsins eru rúmlega 380 í tæplega 190 stöðugildum. Þessar upplýsingar koma fram á heimasíðu styrktarfélagsins. Hér er um merk og mikilvæg samtök að ræða sem skipta fólk með þroskahömlun miklu máli.
Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri og leiðtogi Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi, var mótfallin því að lóð sem samtökunum var úthlutað væri eins nálægt annarri byggð og ákveðið var. Hún taldi að fólk með þroskahömlun þyrfti að vera lengra í burtu frá öðrum íbúum! Þetta þykir lýsa heldur kuldalegu viðhorfi gagnvart þeim sem eiga við þroskahömlun að stríða.
Á Seltjarnarnesi er mikil reiði í garð Ásgerðar vegna þessa máls. Henni hafa verið mislagðar hendur við stjórn bæjarins og vaxandi óþolinmæði gætir gagnvart henni, jafnt innan flokks hennar sem utan.
Þetta mál gæti verið kornið semfyllir mælinn gagnvart Ásgerði. Á nætu vikum kemur á daginn hvort aðrir bæjarfulltrúar láta verða af því að taka höndum saman og kjósa nýjan bæjarstjóra úr Sjálfstæðisflokki eða minnihlutaflokkunum. Úr nokkrum frambærilegum fulltrúum er að velja.