Aron Leví Beck borgarfulltrúi Samfylkingarinnar mun vera málþingsstjóri á málþingi ADHD samtakanna en markmið þess er að varpa ljósi á stöðu einstaklinga með ADHD á vinnumarkaði.
„Þegar ég var spurður þurfti ég ekki að hugsa mig tvisvar um. Mikilvægi ADHD samtakana eru ótvíræð rétt eins og viðeigandi meðhöndlun á hvaða geðröskunum sem er,“ segir Aron sem telur það heiður að sinna hlutverki málþingsstjóra.
Hann þakkar fyrir hversu fljótt var gripið inn í hans tilfelli en segir það ekki alltaf vera raunina.
„Meðfylgjandi er gömul greining sem mamma mín gróf upp fyrir ekki svo löngu og sýndi mér.“
„Drengurinn er með ofvirknieinkenni sem eru alvarleg“
Í greiningu Arons sem gerð var þegar hann var átta ára gamall má sjá sérfræðing telja upp hegðunarerfiðleika, mótþróaþrjóskuröskun, Tourette heilkenni með áráttu-þráhyggjueinkennum og ofkvíðaröskun.
„Afneitun og fordómar er það hættulegasta sem getur komið fyrir hjá börnum og fullorðnum með adhd, hvort sem það komi frá þeim sjálfum eða foreldrum. Ég þekki því miður allt of mörg dæmi þar sem fullorðnir einstaklingar sem hafa fengið greiningu á seinni árum eru sárir og jafnvel reiðir því ekki var gripið fyrr inn í. Líf þeirra hefur gjörbreyst í alla staði og því skiljanlegt að það sé erfitt að lifa með hugsunum á borð við „hvað ef þetta hefði verið gert fyrr? Hefði ég klárað framhaldsnám, ætti ég pening til þess að framfleyta mér, hefði ég og maki minn kannski ekki skilið, hefði ég getað nýtt hæfileika mína betur?“
Þá segir Aron það skipta öllu máli að fólk átti sig fljótt á stöðunni upp á góðan stuðning og að allt hafi smollið vel í hans tilfelli.
Málþing ADHD samtakanna verður haldið 1. nóvember kl. 12:00 – 16:00 á Grand Hótel, nánar má lesa um þau hér.