Ögurstund er runnin upp í íslensku samfélagi. Eftir sjö og hálft ár frá hruni hyllir loks undir að almenningur fái þær siðbætur sem aftengdur pöpullinn hefur kallað svo lengi eftir.
Misskipting gæða hefur náð sögulegu hámarki á lýðveldistímanum. Spilling og klíkubönd hafa náð slíkum hæðum að annað hvort hlaut sjoppan Ísland að sökkva í sæ eða fólkið að rísa upp.
Í fyrsta skipti í Íslandssögunni hefur forsætisráðherra orðið ber að slíkri græðgi, mótsögnum, hagsmunaárekstrum og lygum að 22.000 manns báru hann út úr forsætisráðuneytinu í vikunni. Þjóðinni hefur tekið að bylta æðsta strumpi græðginnar og hrokans. Það er afrek en hann er þó ekki alveg horfinn á braut úr stjórnmálum. Leppir út um allt og Bjarni Ben situr enn.
Leppstjórn hins fallna Sigmundar Davíðs von Tortóla situr enn með dýralækni í brúnni, auðnuleysingja sem sér ekkert athugavert við að ríkir Íslendingar geymi fé í skattaskjólum. Verk er því að vinna. Hin nýja von sem fæddist í vikunni er eigi að síður björt. Við bíðum þess að leyfar spilliefnanna rati út úr þinghúsinu, bíðum þess að nýtt fólk með engan farangur taki við.
Til að fylgja þeim umbótum eftir sem þegar er búið að ná fram verður stjórnarandstaðan ekki síður en meirihlutinn líka að leggja sig fram við að hreinsa út feyskna kvisti. Allir þurfa að taka til svo hægt sé að skapa nýja trú, nýja von, nýtt traust.
Þeir sem krefjast þess að Bjarni, Ólöf og þau hin hverfi burt af sviði íslenskra stjórnmála ættu líka að sjá að Árni Páll, Steingrímur og fleiri \"atvinnupólitíkusar\" ættu að nota færið núna til að finna nýjan vettvang. Fleiri mætti nefna. Við þurfum að losna við alla þá sem gætu tafið fyrir umbótum með sögu sinni. Siðbót er lykilorðið. Það þarf að rýma til og hleypa inn súrefni fyrir nýtt og óumdeilt fólk.
Vegna þess að borgarar landsins eiga skilið traust. Við eigum skilið að geta gengið til starfa okkar á morgnana án þess að óttast um eigin hag, án þess að óttast að siðspillt og útbrunnið klíkuhyski fremji skemmdarverk á landinu okkar frá morgni til kvölds eða tefji fyrir umbótum.
Nú er tækifærið. Mæling á trausti er besti vegvísirinn. Með sama hætti og það er sjálfsagt að formaður Sjálfstæðisflokksins stígi til hliðar ætti stórlaskaður formaður Samfylkingarinnar að gera slíkt hið sama. Sem og aðrir með of mikinn farangur. Dögun vonar er núna!
Árni Páll Árnason, takk fyrir viðleitnina en mál er að linni. Þetta er orðið gott. Ef það er rétt sem þú segir að það sé mikilvægara en allt annað að ryðja brautina svo nýir vindar geti blásið veistu hvað þú þarft að gera sjálfur. Nýttu nú besta færi sem þú hefur fengið til að slá síðustu vopnin úr höndum laskaðrar ríkisstjórnar og segðu af þér sjálfur. Þú yrðir frjáls að því loknu og myndir færa öðrum frelsi líka.
Björn Þorláksson.