Ármann Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi, hefur fengið mikið rými í fjölmiðlum að undanförnu fyrir þá rakalausu gagnrýni sína að lífeyrissjóðir beri ábyrgð á húsaleiguokri á höfuðborgarsvæðinu vegna lána sem þeir eiga að hafa veitt íbúðarleigufélögum eins og Heimavöllum.
Hann hefur komið fram í sjónvarpi nánast grátklökkur út af erfiðri stöðu ungs fólks á leigumarkaði. Eins og hræsnisfullum stjórnmálamönnum er tamt, þá er bent á meinta sökudólga.
Nú eru það leigufélög og ekki síst lífeyrissjóðir fyrir að lána slíkum félögum. Ármann hlýtur að vita að það er hluti af starfsemi lífeyrissjóða að lána til fasteignakaupa, ekki síst beint til sjóðsfélaga sem eiga kost á hagstæðum lánum til 40 ára með 3,6% raunvöxtum þar sem lánað er út á 75% íbúðarverðs. Þessi lán njóta gífurlegra vinsælda meðal sjóðsfélaga.
Sökudólgarnir eru einkum tveir. Auðvitað nefnir Ármann hvorugan þeirra vegna þess að það hentar ekki pólitískum loddaraleik hans:
Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa ekki staðið sig í að útvega lóðir undir litlar íbúðir sem gætu hentað ungu fólki. Það gildir um Kópavog ekki síður en önnur sveitarfélög. Ármann er því sjálfur og persónulega ábyrgur fyrir hluta vandans og ætti að líta sér nær.
Það fyrirtæki sem á mesta sök á húsaleiguokrinu á höfuðborgarsvæðinu heitir GAMMA. Fyrirtækið hóf fyrir nokkrum árum að kaupa upp íbúðir í Reykjavík í hundraðatali og leigja út á uppsprengdu verði. Fyrirtækið hefur haldið áfram á sömu braut, byggt og keypt og leigt út á hæstu verðum.
GAMMA ræður nú yfir mörg þúsund íbúðum í leigu. Almennt er talið að enginn aðili eigi meiri sök á húsaleiguokri en þeir. Enginn hefur veikt stöðu ungs fólks á húsnæðismarkaði meira en þeir.
Hvers vegna hentar það Ármanni Ólafssyni ekki að beina gagnrýni sinni frekar að þessum rétta aðila?
Skýringin er væntanlega sú að GAMMA er eitt af helstu dekurfyrirtækjum Sjálfstæðisflokksins. Aðaleigandi og forstjóri þess er Gísli Hauksson sem sæti á í miðstjórn flokksins og er formaður Fjármálaráðs Sjálfstæðisflokksins sem glímir m.a. við skuldaklafa flokksins sem nálgast nú 500 milljónir króna.
GAMMA hýsir nokkra flokksgæðinga eins og til dæmis Jónmund Guðmannsson, fyrrum framkvæmdastjóra flokksins.
Ármann, er nokkur þörf á að segja ljótan sannleika um svona flokksgæðinga?
Maður beinir bara fingri eitthvað annað!