Árið gert upp, nýjar hefðir og siðir á heimilum og jólakúlan

Albert Eiríksson matar- og sælkerabloggari og Berglind Guðmundsdóttir hjá Gulur, rauður, grænn og salt verða hjá Sjöfn Þórðar í jólaþætti þáttarins Matur & Heimili á mánudagskvöld:

Það má með sanni segja að árið sem senn er að líða hafi verið fordæmalaust og ólíkt því sem við eigum að venjast. Í jólaþætti þáttarins Matur og Heimili fær Sjöfn Þórðar þáttastjórnandi til sín góða gesti og býður þeim til hátíðarkvöldverðar og spjalls á Grillmarkaðinum þar sem árið verður gert upp. Albert Eiríksson matar- og sælkerabloggari með meiru ásamt Berglindi Guðmundsdóttur gleðigjafa hjá Gulur, rauður, grænn og salt verða gestir Sjafnar og það skal engan undra að þau munu fara á kostum. Hrefna Rósa Sætran matreiðslumeistari og sjónvarpskokkur og Guðlaugur P. Frímannsson matreiðslumeistari framreiða glæsilega þriggja rétta jólamáltíð fyrir gestina að hætti Grillmarkaðarins meðan árið er gert upp.

M&H Jólaþátturinn dekkað borð 2020.jpg

Bjargey Ingólfsdóttir stíllisti og lífsstílsbloggari sá um að dekka hátíðarborðið fyrir jólaþáttinn í ár.

Nýja jólakúlan sem umlykur hefðirnar og siðina

Farið verður yfir sviðið, vítt og breitt þegar kemur að matarvenjum og auknum stundum Íslendinga í eldhúsinu á þessu herrans ári, framkvæmdagleðina innan sem utan dyra og nýjar hefðir og siði í tengslum við jólahátíðina. „Jólin verða róleg og notaleg með mínum í ár,“segir Berglind og hlakkar til kósí stunda með börnunum sínum. Albert tekur undir í sama streng: „Við Bergþór verðum með okkar jólakúlu og eldum okkar uppáhalds jólamat.“ Þátturinn verður með hátíðarívafi þar sem Albert og Berglind munu svipta hulunni af jólamatseðlinum sínum í ár og hvernig þeim líst á nýju jólakúluna.

Þátturinn Matur og Heimili er sýndur alla mánudaga á Hringbraut klukkan 20.30 og aftur klukkan 22.30.