Arfinn í garðinum er yndisleg fæða

Fífillog arfi eru jurtir sem fæstir vilja sjá í görðunum sínum en þær eru nytsamlegri en margan grunar. Anna Rósa grasalæknir segir af nógu að taka þessa dagana á grasbölum og í fjallshlíðum landsins.

Stundum þurfi þó ekki að leita langt yfir skammt, garðarnir í borgum og bæjum landsins séu líka fullir af nærandi plöntum sem gera okkur gott eins og fram kemur í viðtali við hana í Fréttatímanum. 

\"Það er mjög gott að nota fíflablöðin í salat,“ segir Anna Rósa sem er sérstaklega hrifin af túnfíflinum í matargerð: \"Fífillinn er aðeins farinn að falla og blöðin því orðin örlítið beiskari en þau eru samt sem áður mjög bragðgóð. Steikt fíflablöð með kryddi eru frábært meðlæti með hverju sem er, sjálf nota ég þau mikið með kjöti. Fíflablöðin eru mjög vatnslosandi og það er eitthvað sem allir vilja, sérstaklega eftir allar grillveislurnar. Svo hefur sjálf fíflarótin hægðalosandi áhrif og virkar vel gegn vindverkjum og almennum magavandræðum. Ég tíni hana á haustin og blanda við fjallagrös til að búa til meltingartintúru. Svo eru fíflablómin sjálf, steikt upp úr smjöri og salti, ótrúlega góð, ekkert beisk og minna töluvert á sveppi.“

Hún bætir við: \"Annað sem er mjög sniðugt að nota núna er venjulegur haugarfi,“ segir Anna Rósa. „Arfinn er ofsalega mildur og bragðgóður og því algjör snilld í öll salöt auk þess sem hann er mjög ríkur af vítamínum. Það er um að gera að tína nóg af honum og búa til arfapestó sem geymist vel í nokkra daga í ísskápnum. Svo mæli ég með því að fólk fari niður í fjöru og týni skarfakál sem er stútfullt af C-vítamíni og afskaplega gott í salöt. Það er á mismunandi stigi en best er auðvitað að nota sem nýlegust blöð í salatið.“

Ennfremur segir grasalæknirinn: \"Núna er nóg af spánarkerfli í görðunum í Reykjavík og það er mjög sniðugt að safna saman fræjunum af honum, sem eru með lakkrískeim, og nota sem krydd í mat eða salöt. Þau eru best fersk og ég mæli sérstaklega með því að setja þau fersk í eplapæ eða hvers kyns sæta eftirrétti. Svo er auðvitað tími núna til að tína blóðberg og birkilauf sem hægt er að þurrka og nota í te eða sem krydd. Mér finnst blóðbergið til dæmis ómissandi á lambakjötið.“

Steikt fíflablöð að hætti Önnu Rósu:

2 bollar túnfíflablöð
2/3 dl jómfrúarolía
1/2 ferskur chili, fræhreinsaður
3 hvítlauksrif
2 cm engiferrót

Allt steikt saman á pönnu og notað sem meðlæti með hverju sem er.

Verði ykkur að góðu!