Karen Jónsdóttir, Kaja eins og hún er ávallt kölluð, stofnandi og eigandi Matarbúrs Kaju og Café Kaju býður upp á safahreinsun tvisvar á ári sem hefur notið mikilla vinsælla. Eins og allt það sem Kaja framleiðir og gerir er aðal áherslan á lífrænt hráefni enda rekur Kaja eina lífrænt vottaða kaffihús landsins. Sjöfn Þórðar fór á stúfana og heimsótti Kaju og fékk hana til að segja okkur nánar frá safahreinsuninni sem hún er að bjóða upp, tilurðinni, markmiðinu og þeim árangri sem hún getur skilað.
Þú hefur verið að bjóða uppá safahreinsun, segðu okkur aðeins frá tilurð hennar?
„Eftir að ég veiktist leitaði ég allra leiða til að ná heilsu að nýju. Eftir mikinn lestur og yfirlegu varð ég nokkuð sammála þeim kenningum um að hreinsa þurfi líffærakerfið annað slagið. Eftir margar prufur og leit að hreinsun sem hentaði mér, rakst ég á bók sem heitir Sjö daga safakúr, en þessi safakúr grundvallaðist meira sem megrun heldur en hreinsun. Ég fór í gegnum þennan safakúr nokkrum sinnum og breytti og þróaði þannig að hann hentaði mér og hefði hlutverk hreinsunar ekki megrunar. “
Eru uppskriftirnar af söfunum þínar?
„Já, það eru grunnuppskriftir en þær eru þó breytilegar eftir því hvaða hráefni fást en ég nota einungis lífræn hráefni í safana eða íslensk sem eru ræktuð villt eða án eiturefna. Enda er það grunnurinn að hreinsa út er að nota „hreinan“ mat.“
Er gott fyrir líkama og sál að fara í safahreinsun og hvers vegna?
„Mér finnst það alveg nauðsynlegt bæði andlega og líkamlega, það á sér svo mikil endurnýjun stað og síðan er þetta frábær leið til að núllstilla sig, losna við bjúg og bólgur. Þetta auðveldar fólki líka að hefja og ná tökum á breyttum lífsstíl.
Hver er tilgangur safahreinsunnar?
„Safarnir minnka álag á meltinguna og gefa líkamanum tóm til að hreinsa eiturefni út úr líkamanum og vinna svolítið að viðgerðum.“
Hvernig er prógrammið fyrir safahreinsunina?
„Safahreinsun er átta daga prógramm sem samanstendur af þriggja daga undirbúningi og síðan fimm dögum þar sem viðkomandi neytir einungis safa, ávaxta og fræja. Safarnir eru allir með trefjum og eru þeir samtals 25 og enginn eins, þar sem hver safi á að hafa sína virkni. Fyrri hluta hreinsunarinnar eru notaðir ávextir og grænmeti sem hafa losandi og hreinsandi áhrif og í seinni hlutanum eru hráefnin til að byggja upp. Prógrammið fyrir safahreinsunina er í boði tvisvar á ári þ.e.a.s. á haustin og vorin.
Segðu okkur aðeins frá því hráefni sem þú notar í safana?
„Hráefnin eru lífrænt vottuð, villt íslensk og svo íslenskt ræktað grænmeti án eiturefna.“
Skiptir samsetningin á hráefnum máli?
„Já, samsetningin skiptir miklu máli bæði til að ná góðu bragði, upplifun og svo hreinsandi þættinum.“
Þarf að undirbúa sig fyrir safahreinsunina?
„Já, það eru teknir 3 dagar í undirbúning þar sem allt kjöt, fiskur, sykur, glúten og mjólkurvörur eru teknar út.“
Geta einhverjar aukaverkanir fylgt því að fara í safa hreinsunina?
„Já, aukaverkanir geta verið misjafnir og fara allt eftir því hvar fólk er statt í lífinu og þeim lífsstíl sem það hefur tileinkað sér. Til mynda þeir sem eru vanir að drekka mikið kaffi eða koffein drykkjum geta fundið fyrir hausverk og þreytu svo dæmi séu tekin. Enda eru viðbrigði að taka út koffeindrykki í fimm daga en vel þess virði. Aukaverkanir eru mjög persónubundnar og sumir finna strax fyrir ferskleika bæði í líkama og sál.“
Hvaða árangri getum við náð með safahreinsuninni?
„Í sumum tilfellum er hægt að losna við lyf vegna ýmissa lífstílssjúkdóma en það á einungis við ef fólk heldur áfram að vera á beinu brautinni. Betri líðan á allan hátt, léttara skap, bólgu minnkun og svo mætti halda áfram.“
Gaman er að segja frá því að Kaja stefnir að því að vera með booztbar í sumar þar sem boðið verður upp á einhverja af þeim girnilegu söfum sem tilheyra safahreinsuninni. Bragðið á söfunum gefur nýja upplifun fyrir bragðlaukana að njóta.
Safahreinsun Kaju hefur notið mikilla vinsælda og hafa þátttakendur lýst ánægju sinni með upplifuninni og sent Kaju gullmola um líðan sína. Hér má sjá nokkrar fleygar setningar um upplifunina:
„Mér líður alveg glimrandi. Finn fyrir mikilli orku, léttleika og gleði. Svo er ég búin að vera með alveg rosa mikla einbeitingu og skýrleika í dag í skapandi vinnu.“
„Mér finnst safarnir svo góðir. Mér líður svo vel bæði í húðinni og í kroppnum. Líkaminn er greinilega þakklátur fyrir þessa meltingafríu daga.“
„Safarnir koma stöðugt á óvart, bragðgóðir og gefandi fyrir líkama og sál.“