Anton kominn með byggingaleyfi á einni glæsilegustu sjávarlóð landsins

Athafnamaðurinn Anton Kristinn Þórarinsson keypti á dögunum einbýlishús að Haukanesi 24 í Garðabæ. Húsið keypti Anton af Rasmusi Rojkjaer, fyrrverandi forstjóra Alvotech á Íslandi. Mannlíf greindi frá kaupunum á sínum tíma en kaupverð eignarinnar var 110 milljónir króna samkvæmt kaupsamningi.

Um er að ræða 288 fermetra einbýlishús sem er í slæmu ástandi. Í auglýsingu Miklaborgar um eignina kemur fram að húsið sé til niðurrifs og um „einstakt tækifæri“ sé að ræða til þess að byggja draumahúsið alveg við sjávarkambinn.

Það ætlar athafnamaðurinn Anton að gera. Í vikunni fékk hann samþykki hjá bæjarráði Garðabæjar fyrir endurbyggingu og stækkun hússins.

Anton flytur út á Arnarnesið úr glæsilegu einbýlishúsi við Frjóakur í Garðabæ. Húsið seldi hann í janúar en annar athafnamaður og fjárfestir, Magnús Ármann, og eiginkona hans, Margrét Íris Baldursdóttir, keyptu 650 fermetra glæsihýsið á 360 milljónir króna.