Sem betur fer viljum við flest vanda málfar okkar. Ég hnaut um nokkrar algengar villur í tali manna síðustu daga og langar að nefna tíu þeirra:
1) „Bregðum okkur yfir til Evrópu“ segir veðurfræðingurinn og beinir sjónum sínum frá Íslandi til meginlands álfunnar. Ísland er í Evrópu. Meira að segja mætti færa rök fyrir því að Ísland sé meginlandsríki í ýmsum skilningi, en það er önnur saga.
2) Um meginland Evrópu renna mörg stórfljót. Eitt þeirra heitir Saxelfur sem ég heyrði fréttamann á dögunum kalla Elbe. Löng hefð er fyrir fyrir því að notast við íslensk sérnöfn um erlend örnefni. Sem dæmi má nefna Hjaltland (ekki Shetland), Rúðuborg (ekki Rouen), Kænugarður (ekki Kiev), Kaupmannahöfn eða Höfn (ekki København (hvað þá orðskrípið „Köben“)), Björgvin (ekki Bergen) og þannig mætti lengi telja. Þá er að sama skapi hefð fyrir því í íslensku máli að nota þau staðarheiti sem íbúar viðkomandi landa tíðka sjálfir. Sem dæmi má nefna München (ekki Munich) höfuðborg Bæjaralands (Bayern). Þá keyrir um þverbak þegar það ágæta þýska sambandsland er kallað „Bavaria“ í íslenskum texta.
3) Nýlega heyrði ég að einhver hefði „slasast lítillega“. Slys er ekki lítilsháttar en hægt er að meiðast lítillega. Að „slasast lítillega“ hljómar eins og að einhver hafi „dáið dálítið“. Annað hvort er maður lifandi eða dauður.
4) Á dögunum heyrði ég fréttamann tala um „sitjandi“ Bandaríkjaforseta og átti þar við þann miður geðþekka mann er nú gegnir því embætti. Æ oftar eru ráðamenn „sitjandi“. Þessu orði er ofaukið enda á öllum að vera ljóst að Sebastian Kurz er kanslari Austurríkis og Emmanuel Macron er forseti Frakklands, hvort sem þeir sitja eða standa.
5) Tungutak margra er mjög einhæft. Sumir nota sögnina að „funda“ þegar þeir eru að hittast að máli, ræðast við eða þinga.
6) Frá því er sagt í fréttum að grunnskólanemendur fari í „verkfall“ á föstudögum til að mótmæla hækkandi hitastigi. Nemendur eru þó ekki að starfi. Mætti ekki hugsa sér frekar að þeir færu í „námsfall“?
7) Samsláttur orðatiltækja er æði algengur. Um daginn heyrði ég að einhver hefði „rekið endahnútinn“ á eitthvað. Talað er um að binda endahnútinn á og reka smiðshöggið á.
8) Æ oftar heyrist orðið „snjóstormur“. Þetta er vitaskuld ekki íslenska en ef flett er upp orðinu snowstorm í ensk-íslenskri orðabók er það þýtt sem stórhríð. Hér koma ýmis önnur orð til greina, svo sem bylur, sem getur orðið kafaldsbylur, blindbylur eða öskubylur.
9) Fyrir skemmstu heyrði ég þessa setningu: „Þegar upp var staðið sigruðu Valsarar á meðan KR-ingar urðu að sætta sig við fjórða sætið.“ Þarna á að standa en – ekki „á meðan“. Líklega er þetta tilkomið fyrir ensk máláhrif – while hefur aðalmerkinguna „á meðan“ en while getur sömuleiðis verið gagnstæðistenging á ensku, þ.e. „en“ á íslensku. Sem dæmi má nefna: „Í Stykkishólmi búa 1168 manns en í Grundarfirði 824.“ Hér skal nota gagnstæðistenginguna „en“ – ekki „á meðan“.
10) Ósjaldan „bætir í vind“. Mætti ekki bara allt eins hvessa?