Anna Margrét Grétarsdóttir hlífir sér hvergi þegar hún lýkur við að segja einstaka örlagasögu sína í þættinum Örlögin á Hringbraut í kvöld, en þá verður seinni hluti viðtalsins við hana sýndur.
Fyrri hluti viðtalsins fór í loftið fyrir hálfum mánuði og átti seinni hlutinn að vera á dagskrá fyrir viku, en var frestað vegna landsleiks Íslendinga og Englendinga á EM í Frakklandi. Anna Margrét fer því í loftið á sama tíma og strákarnir okkar lenda og finna fögnuð og þakklæti íslenskra áhorfenda á Arnarhóli, hvar formleg móttökuathöfn verður klukkan 19:00 í kvöld. Hálfum öðrum tíma siðar er upplagt að setjast niður að horfa á Önnu Margréti segja sögu sína til þessa dags, en hún er elsti Íslendingurinn sem gengist hefur undir kynleiðréttingu - og fór þar alla leið eins og hún lýsir í opinskáu viðtalinu sem varpar sterku ljósi á hlutskipti þess fólks sem finnur það á unga aldri að það hefur fæðst í röngum líkama og finnur ekki frið í sálu sinni fyrr en það hefur leiðrétt kyn sitt.
Örlögin eru á dagskrá Hringbrautar öll mánudagskvöld klukkan 20:30.