Anna Kristjánsdóttir, þjóðfélagsrýnir og íbúi á Tenerife, segir mikilvægt að allir þeir sem komnir eru yfir fimmtugt fari í ristilskoðun með reglulegu millibili.
Anna minnir á þetta í nýjum pistli á Facebook-síðu sinni og rifjar upp sögu af gömlum félaga sem greindist með ristilkrabbamein og lést skömmu síðar.
„Góð vinkona, reyndar ein af mínum uppáhalds er stödd á Íslandi þessa dagana vegna veikinda móður sinnar. Hún notar tækifærið og fer í allsherjar læknisskoðun í leiðinni, þar á meðal ristilspeglun. Eftir að hafa lent í slíku get ég fullvissað hana og aðra um að það er "pís of cake", en samt nauðsynlegt fyrir allt fólk sem er komið yfir fimmtugt,“ segir hún meðal annars.
Anna fór sjálf í slíka rannsókn fyrir fáeinum árum og segir hún að læknirinn hafi úrskurðað í kjölfarið að ristillinn í henni væri „eins og nýskeint barnsrassgat“.
„Himinlifandi ánægð hélt ég heim eftir rannsóknina en er ég kom heim hitti ég gamlan skipsfélaga á bílastæðinu fyrir utan blokkina mína, en móðir hans bjó í þarnæsta stigagangi. Hann tjáði mér að hann væri hættur að vinna, hefði greinst með ristilkrabbamein. Hann lést þremur mánuðum síðar. Sem ég segi. Öll yfir fimmtugt fari í skoðun áður en það er um seinan. Þetta er spurning upp á líf eða dauða.“