Andleg heilsa - streita og aðrir kvillar

Undanfarin ár hefur umræða um andleg veikindi, andlegt heilbrigði, geðræn vandamál og geðrækt aukist gífurlega. Gott nýlegt dæmi um þá vitundarvakningu og afskömmun sem hefur verið í gangi er #égerekkitabú sem tröllreið twitter, facebook og öðrum samfélagsmiðlum. Við lifum svo sannarlega á tímum póstmódernisma þar sem allt á að vera leyfilegt og ekkert á að vera tabú, megin viðmiðið er að fagna fjölbreytileikanum. Stöldrum aðeins við og ímyndum okkur hvernig viðhorf fólks hafa breyst frá því fyrir 30 árum síðan, eða 50 eða 100 árum. Hvernig viðhorf hafa breyst varðandi samkynhneigð, stöðu kvenna, andleg veikindi, kynferðislegt ofbeldi o.s.frv. Að mínu mati hefur góð þróun átt sér stað í þessum málum og er samfélagið okkar orðið opnara og minna dæmandi, enn er þó svolítið í land.

Andleg heilsa

Alþjóðaheilbrigðismálastofunin skilgreinir heilsu sem ástand líkamlegrar, andlegrar og félagslegrar vellíðunar en ekki aðeins fjarveru sjúkdóms. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni er skilgreiningin á geðheilbrigði eftirfarandi: Geðheilbrigði vísar til fjölda gjörða í víðu samhengi sem beint eða óbeint hafa áhrif á andlega vellíðan. Hvað þýðir þetta? Ég skil þetta þannig að hægt sé að temja sér heilsusamlegan andlegan lífstíl alveg eins og líkamlegan; að hægt sé að styrkja og þjálfa sig andlega með ákveðnum leiðum.

Í dag er almennt betur viðurkennt að andleg vanlíðan getur valdið líkamlegri vanlíðan. Þessi tenging á milli hins andlega og líkamlega er meira viðurkennd nú en áður. Streita og kvíði getur sem dæmi valdið líkamlegum einkennum og það sama á við um þunglyndi. Því hefur til að mynda verið haldið fram að um þriðjungur fólks á biðstofum lækna séu þar vegna líkamlegra kvilla sem stafa af völdum andlegrar vanlíðunar eða streitu. Einstaklingur getur verið svo uppgefinn andlega af miklum kvíða eða streitu að líkami hans fer að líða fyrir það. Fólk getur fengið sjóntruflanir, náladofa í útlimi eða kraftmikinn og stöðugan höfuðverk, svo dæmi séu tekin. 

Hugræn atferlismeðferð getur reynst hjálpleg í vinnu með andleg vandamál af þessum toga. Þar er farið í að breyta ákveðnum hugsunarferlum og innri viðbrögðum við ákveðnum aðstæðum. Einnig er mikilvægt að gera sér grein fyrir streitunni og þeim þáttum sem henni valda. Í framhaldi af því er hægt að fara meðvitað að draga úr streitu. Núvitund/gjörhygli er vinsælt form hugleiðslu sem getur verið mjög gagnleg.

Fyrir þá sem vilja kynna sér streitu og áhrif hennar betur þá er áhugavert og fróðlegt átak í gangi á facebook undir nafninu : Ekki halda stressi til streitu.