Það hlýtur að vera einhver skýring á þeim alvarlegu mistökum sem Bjarni Benediktsson gerir með því að verja lögbrot og misgjörðir Sigríðar Andersen í stað þess að víkja henni úr embætti ráðherra.
Bjarni er orðinn reyndur stjórnmálamaður eftir 15 ár á þingi og 5 ár sem ráðherra. Hann er enginn pólitískur smákrakki eins og tveir af ráðherrum flokks hans. Bjarni ætti því að geta lesið betur í þá hræðilegu stöðu sem skapast hefur kringum Sigríði Andersen dómsmálaráðherra og versnar með hverri vikunni.
Í umræðum á Alþingi vegna vantrausts á Sigríði þorði hann ekki að ræða um efnisatriði málsins en vældi um að vantraustið snérist bara um að koma höggi á Sjálfstæðisflokkinn. Mesta höggið á flokkinn er Sigríður sjálf.
Bjarni virðist ekki sjá að flokkurinn gæti snúið vörn í sókn með því að skipta lögbrjótnum út. Hún fer hvort sem er fyrr en síðar - rétt eins og Hanna Birna sem ætlaði sér aldrei að víkja, hvött til dáða af Birni Bjarnasyni og Kjartani Gunnarssyni. En allt kom fyrir ekki. Hanna Birna hrökklaðist frá og út úr íslenskri pólitík, kona á besta aldri.
Þar sem Bjarni Benediktsson er margreyndur stjórnmálamaður sem ætti að gera betur til að koma í veg fyrir pólitískan harmleik í Sjálfstæðisflokknum, sækir sú hugsun að manni hvort hann þori ekki að hreyfa við Sigríði lögbrjót.
Er hugsanlegt að dómsmálaráðherra hafi eitthvað á Bjarna Benediktsson eða fjölskyldu hans?
Gleymum því ekki að vandræðagangurinn í kringum Hjalta barnaníðing og tengsl hans við Benedikt Sveinsson, föður Bjarna, felldi síðustu ríkisstjórn. Er eitthvað meira sem enn hefur ekki komið fram?
Lumar Sigríður Andersen á einhverju sem hún hótar að opinbera, verði stjakað við henni?
Hvernig sem þessu er varið, þá verða örlög Sigríðar ekki umflúin. Hún er búin að vera sem stjórnmálamaður og mun fljótlega hrökklast frá.
Pólitískur harmleikur Sigríðar mun stórskaða Sjálfstæðisflokkinn og hún gæti dregið ríkisstjórnina niður með sér í fallinu.
Oft veltir lítil þúfa stóru hlassi.
Rtá.