Dagfari hitt einn af þingmönnum Virðeisnar í liðinni viku og átti við hann ágæt skoðanaskipti um stöðu mála og horfur framundan.
Þar sem Dagfari er stríðnispúki, byrjaði hann á því að kvarta við þingmanninn um hvernig ESB málum er fyrir komið í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og spurði hvort Viðreisn hefði ekki átt að gera þjóðaratkvæðagreiðslu um málið á fyrri hluta kjörtímabilsins að forgangsmáli og úrslitaatriði.
Þingmaðurinn var ósammála því og sagði að Viðreisn og aðrir yrðu að horfast í augu við það að kjósendur hefðu einfaldlega ekki gert kröfu um þetta þegar rýnt er í úrslit kosninganna. Viðreisn fékk 10,5% greiddra atkvæða og 7 þingmenn kjörna. Það er út af fyrir sig glæsilegur árangur hjá flokki sem var stofnaður 5 mánuðum fyrir kosningar. En Viðreisn hefði þurft að fá talsvert meiri stuðning við Evrópustefnu sína til að geta gert þetta mál að úrslitaatriði við myndun ríkisstjórnar. Hann benti einnig á að flokkurinn hefði víðtæka stefnuskrá og fjölda mála á sinni könnu sem hann vildi vinna framgang og teldi sig ná lengra með þau innan ríkisstjórnar en utan.
Dagfari gat ekki annað en fallist á þessi rök. Ekki síst í ljósi þess að aðrir flokkar sem vildu ljúka viðræðum við Evrópusambandið fengu samtals ekki meirihluta atkvæða. Þannig fékk Viðreisn 10,5% eins og fyrr segir, Björt framtíð var með 7,2%, Samfylking 5,7% og Píratar 14,5%. Samtals 37,9% og 24 þingmenn. Sjálfstæðisflokkur og Framsókn eru mótfallnir þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB en þeir hafa samtals 29 þingmenn. Vinstri grænir með sína 10 þingmenn hafa talað óskýrar um þessi mál en hinir flokkarnir á þingi.
Þingmaðurinn sagði síðan að Viðreisn hafi í kosningunum lagt höfuðáherslu á 11 stefnumál og 9 þeirra hefðu fengið góðan framgang í stjórnarsáttmálanum. Það hlyti að teljast góður og viðunandi árangur þegar þrír flokkar þyrftu að semja um mismunandi stefnur sín á milli. Hann telur að mjög góður samhljómur sé í lang flestum málum milli stjórnarflokkanna þriggja. Mismunandi stefna er í fáeinum málum en fjölmiðlar vilja beina athygli að þeim frekar en að fjalla um þau mörgu og stóru mál sem allir vinna að samstilltir.
Dagfari er ekki mikill aðdáandi vinstri stjórna á Íslandi og telur að reynsla af þeim sé undantekningarlaust mjög vond. Hann hlustaði því vel þegar þingmaðurinn lýsti þeirri skoðun sinni að nú væri vinstri stjórn við völd á Íslandi ef Viðreisn hefði ekki boðið fram. Mat hans er að þeir 7 þingmenn sem féllu Viðreisn í skaut hefðu dreifst víða og alls ekki farið til Sjálfstæðisflokksins frekar en annarra flokka ef Viðreisn hefði ekki boðið fram. Þó svo nokkrir þekktir fyrrverandi sjálfstæðismenn séu í forystu Viðreisnar, fullyrðir hann að kjósendur Viðreisnar hafi komið úr ýmsum áttum, margir aldrei verið flokksbundnir, aðrir ekki haft áhuga á stjórnmálum fyrr en þeir kynntu sér stefnuskrá Viðreisnar og svo hefðu enn aðrir valið að yfirgefa flokka sem þeir hefðu stutt áður.
Ekki hefði mikil hreyfing þurft að verða á fylgi flokka í síðustu kosningum til að Vinstri grænir, Framsókn og Píratar hefðu náð samtals 32 þingmönnum. Þá hefðum við vinstri stjórn á Íslandi núna, sagði þingmaður Viðreisnar.
Því verður aldrei svarað hvort þetta er rétt mat hjá þingmanninum. En þessi kenning er alls ekki ótrúverðug.
Dagfari er alla vega þakklátur Viðreisn og hinum stjórnarflokkunum, Sjálfstæðisflokki og Bjartri framtíð, fyrir að hafa losað þjóðina við Framsókn úr ríkisstjórn, spilltasta stjórnmálaflokk landsins, og hlíft okkur við því að Vinstri grænir kæmust til valda með skattpíningaráform sín.