Alvöruátök á bak við uppgjör stuttbuxnadeildar sjálfstæðisflokksins

Margir halda að formannskosningar í SUS sem fara fram um helgina séu bara krúttlegur sandkassaleikur krakkanna í Sjálfstæðisflokknum.
 
Það er mikill misskilningur því um er að ræða alvarleg átök milli valdafylkinga í flokknum.
 
Klögumálin hafa gengið á milli formannsframbjóðendanna tveggja, Ísaks Einars Rúnarssonar og Ingvars Smára Birgissonar. Þeir væna hvor annan um óheiðarleg vinnubrögð. Fjölmiðlaumræðan er afar neikvæð og mjög skaðleg fyrir flokkinn því margir líta þannig á að hún sé dæmigerð fyrir hugarfarið í flokknum sem að sönnu mætti vera heiðarlegra.
 
Talið er að flokkseigendum hugnist Ingvar betur en hann nýtur m.a. stuðnings gamallar klíku sem var í kringum Illuga Gunnarsson meðan hann var og hét. Þá er stutt í Bjarna Benediktsson og hirðina kringum hann. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir þingmaður er ákafur stuðningsmaður Ingvars.
 
Grasrótarfólkið í Reykjavík vill aftur á móti fá Ísak Einar sem næsta formann SUS. Hann mun einnig njóta víðtæks stuðnings meðal þeirra þingfulltrúa víða af landinu sem telja að valdshópurinn í flokknum sé allt og þröngur.
 
Fari Ísak Einar með sigur af hólmi verður litið á það sem aukinn styrk Guðlaugs Þórs Þórðarsonar í flokknum en hann hefur aldrei tilheyrt flokkseigendum í Sjálfstæðisflokknum.
 
Úrslit formannskosninga í SUS munu gefa vísbendingar um hvers má vænta á landsfundi flokksins í byrjun nóvember.
 
SUS-þingið er ekki bara sandkassi stuttbuxnaliðsins heldur barómeter á valdabaráttuna í öllum flokknum.
 
Rtá