Senn er nóg komið af hvers kyns þvælu um alls konar fólk sem sé að velta fyrir sér forsetaframboði. Allmargir hafa fengið útrás fyrir bælda athyglisþörf sína vegna þessa og enn aðrir telja sig hafa kímnigáfu varðandi þetta verkefni sem eigi erindi við fjöldann. Senn er nóg komið.
Mikilvægt er að vel takist til um val á forseta Íslands. Guðni Th. Jóhannesson kom öllum á óvart með því að ákveða að gefa ekki kost á sér áfram til að gegna þessu virðulega embætti.
Með þeirri ákvörðun hans frá í byrjun þessa árs hófust miklar vangaveltur um framhaldið. Nú þegar hafa nokkrir stigið fram sem hafa annað hvort mikla athyglisþörf, brenglað sjálfsmat eða umtalsverðan húmor – nema allt sé í senn.
Til þess að þetta virðulega og mikilvæga embætti okkar brothættu þjóðar verði ekki gengisfellt er mikilvægt að ruglinu ljúki og alvöruframbjóðendur komi nú fram.
Hér er verið að tala um þá sem nefndir hafa verið og verður að líta á sem fólk sem gæti tekið við embætti forseta Íslands og gegnt því með fullum sóma.
Vitað er að Halla Tómasdóttir, sem náði góðum árangri í kosningum fyrir átta árum, er á fullu að undirbúa framboð. Hún gæti gegnt embættinu með sóma. Margir hafa hvatt Ölmu Möller, landlækni, til framboðs. Sama gildir um hana, hún yrði glæsilegur forseti.
Ólafur Jóhann Ólafsson, rithöfundur og maður með glæstan feril úr viðskiptum, hefur oft verið nefndur til þessarar sögu. Jafnan vikist undan svörum þar til nú að hann segist leggja við hlustir. Vonandi stígur hann fram og gefur kost á sér þessa embættis. Ólafur hefur hvarvetna verið yfirburðamaður, allt frá æsku í menntaskóla og æ síðan.
Hann yrði alvöruþjóðarleiðtogi. Maður sem munaði um. Forseti sem Ísland þarf núna.
- Ólafur Arnarson