Alþingi kippt úr sambandi og Steingrímur J. sýnir gamalkunnan hroka

Mikið uppnám varð á Alþingi í gær þegar kom til alvarlegra orðahnippinga milli forseta þingsins og þingmanna úr stjórnarandstöðu. Steingrímur J. Sigfússon lét sig hafa það að slíta þingfundi eftir einungis fjórar mínútur þegar hann gat ekki fellt sig við gagnrýni þingmanns stjórnarandstöðunnar. Eftir það hafði hann uppi dónalegar og órökstuddar yfirlýsingar í fjölmiðlum þar sem hann réðst að þingmönnum úr stjórnarandstöðunni og vændi þá um annarleg vinnubrögð.

Þessi framkoma fer algerlega á skjön við allt tal ráðherra um samstöðu og samstarf milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Fram að þessu hefur verið reynt að láta í veðri vaka að um gott samstarf hafi verið að ræða. En sífellt kemur betur og betur í ljós að samráð við stjórnarandstöðuna er nær ekkert og allt tal um það hálfgerð sýndarmennska.

Þeir sem muna eftir Steingrími frá árunum eftir hrun þegar hann hafði mikil völd í hinni alræmdu vinstri stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur - verstu ríkisstjórn lýðveldisins - eru ekkert hissa á framkomu Steingríms. Hann sýndi þarna gamla takta sem einkenndust af valdhroka og löngun til að stjórna með tilskipunum. Steingrímur hefur lengi aðhyllst ráðstjórn og hann hefur engu gleymt frá tíð vinstri stjórnar Jóhönnu þar sem hann komst upp með meiri yfirgang en almennt hefur þekkst í íslenskum stjórnmálum. Sem forseti þingsins hefur Steingrímur reynt að halda aftur af sér og látið líta út fyrir að hann sæti nú á friðarstóli við lok umdeilds ferils síns í þinginu. En nú missti hann tökin og sýndi sitt rétta andlit. Andlit valdhrokans.

Varla er við því að búast að mikil sátt verði eftir þetta á Alþingi. Það er miður enda ríður nú á að Alþingismenn lyfti sér upp úr sandkassanum og hugsi einungis um þjóðarhag - rétt á meðan það versta gengur yfir.