Íslenskt almannatengslafyrirtæki hefur að undanförnu dreift neikvæðum sögum og óhróðri um flugfélagið WOW. Þessi framkoma er svo alvarleg að erfitt er að trúa þessu. Fregnir af þessu berast þó úr ýmsum áttum.
Náttfari lýsti þeirri skoðun sinni fyrir helgina að hann væri gáttaður á þeim sem héldu uppi andróðri gegn WOW án þess að hafa traustar heimildir fyrir orðum sínum. Með því væri verið að spilla fyrir möguleikum félagsins á sölu nauðsynlegra skuldabréfa.
Sem betur fer hefur þessi atvinnurógur ekki haft tilætluð áhrif því félagið hefur tilkynnt um að sala skuldsbréfa hafi heppnast.
Náttfari fékk mikil viðbrögð við skrifum sínum og langflest jákvæð. Þó heyrðist aðeins nöldur frá einhverjum sem vita upp á sig skömmina og tóku sneiðina til sín.
Það sem vekur furðu nú um helgina er að enn er hamast gegn WOW eins og menn sætti sig ekki við að Skúli Mogensen hafi unnið sigur og tryggt fjármögnun félagsins. Ræður öfund för, eða er verið að gæta einhverra ljósra eða óljósra hagsmuna? Vonandi skýrist það betur?
Morgunblaðið hljóp á sig þegar það lagði forsíðu blaðsins undir ranga frétt um meinta skuld WOW við Ísavía. Fréttin hefur verið rekin til baka og eftir stendur spurningin: Hvaða hagsmunum er verið að þjóna?
Svör við því gætu fengist með því að afla upplýsinga um það hver borgar reikningana frá PR-fyrirtækinu.
Rtá.