Hefur einhver ekki tekið eftir því að nú gengur á með sverum kosningaloforðum í hópi ráðherra ríkisstjórnarinnar? Löngum hafa Íslandingar gantast með slík loforð enda hafa þau oft verið ódýr og lítilsgild. Svona \"skrifaðu flugvöll!\" loforð og höfð í flimtingum. En, varla lengur!
Á síðustu árum hefur nefnilega árað þannig á Íslandi að stjarnfræðilega háar fjárfúlgur sviptast til og frá á einhvern hátt sem fáir skilja og almúginn fréttir af eins og í framhjáhlaupi hjá fréttamiðlunum. Þangað til þessar fúlgur, eða væntar fúlgur, taka á sig ögn sérstæða mynd. Þær eiga það til að verða að svakalegum kosningaloforðum.
Rétt fyrir kosningarnar 2013, 22. apríl, sendi Bjarni formaður Sjálfstæðisflokksins bréf til eldri borgara. Þar voru dýr kosningaloforð, upp á ærið marga milljarða, sennilega í trausti þess að einhverjar hinar dularfullu risafúlgur úr bankabixinu rynnu í þessa átt, eða hvað?
Í bréfinu sagði hann m.a.:
\"Eldri kynslóðir verðskulda að búa við öryggi og góð lífsgæði.
Fái Sjálfstæðisflokkurinn umboð til að leiða næstu ríkisstjórn munum við setja eftirfarandi mál í öndvegi:
Fögur voru fyrirheitin, ekki vantaði það. Alkunnar eru svo efndirnar. Björgvin Guðmundsson viðskiptafræðingur og formaður kjaranefndar Félags eldri borgara hefur verið ötull að vekja athygli á kjörum aldraðra. Í Fréttablaðinu 12. þessa mánaðar skrifar hann: \"Það er stór hópur eldri borgara sem á erfitt með að draga fram lífið. ... Dæmi eru um það að sumir þessara eldri borgara eigi ekki fyrir mat. Þetta er hneyksli. Og þetta láta stjórnvöld viðgangast. Þau hreyfa hvorki legg né lið. Yppta aðeins öxlum.\" Og hann fellir þennan dóm: \"Kjör aldraðra og öryrkja á Íslandi eru blettur á íslensku samfélagi.\"Sjá einnig hér á Hringbraut: http://www.hringbraut.is/frettir/stelur-rikid-lifeyrissjodakerfi-almennings-og-graedir-a-eldri-borgurum
Varla þarf að rifja upp heimsmet fyrrverandi forsætisráðherra í kosningaloforðum: 300 milljarðana sem átti að taka frá hrægömmunum (kröfuhöfum í þrotabú bankanna) og réttaheimilum landsmanna. Efndirnar? 80 milljarðar færðar frá skattgreiðendum til sumra skuldara, enda ráðherrann sjálfur líka hinum megin við borðið í hópi hrægammanna.
Þá var Sigmundur Davíð ekki orðinn forsætisráðherra, en formaður Framsóknarflokksins eins og hann er enn. Hann gaf annað risavaxið loforð: Afnám verðtryggingar og flokksmenn hans í þingliðinu hafa verið ötulir að ítreka það loforð allar götur frá kosningum, en engir tilburðir hafðir upp um að efna það, hafa líklega ekki enn fundið leiðina til þess.
Þá ber svo við að afnám verðtryggingar er allt í einu farið að heita \"að draga úr vægi verðtryggingarinnar\" og jafnvel búið að taka á sig mynd: Nú skal banna fólki að taka verðtryggð lán til 40 ára, en þó bara sumum, flestir fá áfram að taka svoleiðis lán. Hvers vegna þessi kúvending?
Svarið blasir við þegar litast er aðeins betur um í ríkisstjórninni því Eygló hefur heldur betur vaknað af sínum væra blundi nú síðustu vikurnar og gefur nú loforð á báðar hendur sem kosta milljarðana. Hún lofar hækkun fæðingarorlofslauna upp í 600 þúsund (Þrefaldur lífeyrir gamla fólksins, sem ekki er hægt að hækka um krónu!) og lengingu fæðingarorlofsins líka. Og hróðug bendir hún á peningana sem eru þarna og bíða eftir að vera bara teknir til handargagns. Tryggingagjaldið flæðir nefnilega yfir í atvinnuleysitryggingasjóði afþví atvinnuleysið er horfið (svona næstum).
Munum að Sjálfstæðismenn voru aldrei samþykkir afnámi verðtryggingar. Þarna hefur eitthvað gerst.
Rifjum upp spakmæli Miltons heitins Friedman: \"There is no such thing as a free lunch.\" Það er ekki til neitt sem heitir ókeypis málsverður. Það skyldi þó ekki vera að atvinnuleysistryggingasjóður sé gjaldið sem Framsóknarflokkurinn fékk fyrir að falla frá 99% af afnámi verðtryggingarinnar? Skítt með þó að fyrirtækin verði áfram svikin um lækkun tryggingagjaldsins.