Á það hefur ítrekað verið bent að ef lögreglan hefði ekki staðið sig frábærlega við afar erfiðar aðstæður sem tengdust samfélagsreiðinni í kjölfar efnahagshrunsins 2008 og Búsáhaldabyltingar hefði getað farið mjög illa.
Í febrúar 2012 báru 83% landsmanna mikið traust til lögreglu en 10% til Alþingis. Þá settu nokkrir starfsmenn Gallup hugleiðingar sínar á blað, ræddu mikilvægi trausts og rituðu meðal annars þetta:
„Áhugavert er að á árunum fyrir hrun má þegar greina andstæða þróun trausts hjá þessum tveimur stofnunum. Frá 1995 má sjá lögregluna auka traust sitt jafnt og þétt meðal almennings á meðan hið andstæða gerðist hjá Alþingi. Í febrúar 1995 munaði 25 prósentustigum á þeim sem sögðust bera mikið traust til þessara tveggja stofnana (þ.e. þeir sem segjast bera mjög og frekar mikið traust) en 38 prósentustigum árið 2008.“
Eftir hrun varð munurinn enn meiri. 66 prósentustig í febrúar 2009 og jókst enn en allt bendir til að traust til lögreglu sé jafnvel á hraðri niðurleið þessa dagana.
En hvað er traust? Því svaraði „Galluphópurinn“ á sínum tíma: „Traust er ein tegund félagsauðs (social capital). Segja mætti að traust hafi svipaða virkni í samskiptum fólks og smurolía hefur fyrir bílvél. Í samfélaginu er traust svo innbyggt í öll samskipti okkar að við hættum að taka eftir því að flest af því sem við gerum byggist á trausti. Traust felur í sér að við séum berskjölduð fyrir áhættu (Rousseau og fleiri 1998). Þegar við stígum upp í flugvél treystum við því að hún fari á tilgreindum tíma, lendi á tilgreindum ákvörðunarstað, að flugfélagið hafi tilskilin leyfi og að flugstjórinn hafi tilskilda menntun. Við vitum það ekki, við treystum því. Traust tekur við þar sem vissan endar. Við tökum áhættu með því að treysta og getum þurft að taka afleiðingunum af því. En ef við efuðumst um heilindi allra sem við hefðum samskipti við væru samskipti og viðskipti varla möguleg. Vantraust á lögreglunni gæti hæglega orðið okkur eða öðrum að aldurtila ef upp kæmu aðstæður þar sem lögreglu væri þörf, en við myndum ákveða að kalla hana ekki til vegna þess að við treystum henni ekki.“ (Sjá allla greinina hér.)
Hneykslismál síðustu daga
Hneykslismál síðustu daga hafa höggvið skörð í traust til lögreglu. Raunar sér þess þegar stað þegar skautað er yfir pistla og skrif sem landsmenn hafa sett fram síðari vikur. Síendurteknar grunsemdir og rannsóknir eru staðreynd, þar sem grunur beinist að brotum eða spillingu innan lögreglu. Sumir hafa tengt þessa málahrinu við umdeild skipti á lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu. Það þóttu krefjandi skref fyrir Sigríði Björk Guðjónsdóttur að koma frá Suðurnesjum og setjast í stól Stefáns Eiríkssonar sem hraktist burt eftir afskipti Hönnu Birnu Kristjánsdóttur þá ráðherra af eigin rannsókn. Heimildir Hringbrautar innan lögreglu segja að sumpart hafi Sigríður Björk fengið vindinn í fangið. Ekki hefur nýtt mál um samskiptavanda hjálpað til. Það mál leggst ofan á grun um brot innan fíkniefnadeildar, misheppnaða tálbeituaðgerð þar sem margt bendir til að burðardýr hafi verið dæmt til langrar fangelsisvistar að ósekju eftir að hafa hjálpað lögreglu sem klúðraði aðgerðinni. Þá er nýlegt mál á Vesturlandi þar sem 16 ára gömul stúlka var látin afklæðast og beygja sig fram án þess að reglum virðist hafa verið gætt til skoðunar nú fyrir dómi. Þá hefur vopnavæðing lögreglu vakið tortryggni sem og klaufaskapur í tengslum við vopnainnflutning. Enn á þjóðin um sárt að binda eftir að sérsveitin varð geðfötluðum manni að bana í Hraunbæ. Öll spjót standa því á lögreglunni sem stendur.
Svarar ekki fyrirspurn
Vegna samskiptavandans hefur Hringbraut sent Sigríði Björk lögreglustjóra fyrirspurn. Hún hefur ekki svarað þeirri fyrirspurn. Þar er m.a. spurt hvort hún telji að hennar eigið kyn kunni að skýra hluta af samskiptavanda, hvort löggukarlarnir eigi erfitt með að venja við sig við að kona er í fyrsta skipti í sögunni æðsti yfirmaður lögreglumála á höfuðborgarsvæðinu.
Hringbraut spyr sakir þess að hermt hefur verið í eyru blaðamanns Hringbrautar að valdastríð standi yfir innan lögreglu á Íslandi. „Hér er mikið af testosteroni og auðvitað getur það blossað út í alls konar vitleysu,“ sagði kvenkyns lögreglumaður sem Hringbraut ræddi við en kaus nafnleynd í ljósi ástandsins.
Dvergarnir teknir – risar í friði?
Í Íslandi í dag í gær á Stöð 2 var birt viðtal við Sigríði Björk. Jóhann Kristjánsson verkfræðingur sem látið hefur sig samfélagsmál varða með ýmsum opinberum skrifum síðari ár horfði á viðtalið og lýsir því svo á facebook-síðu sinni að í þættinum hafi komið fram að allt sé „í klessu“ hjá fíkniefnadeild lögreglu. Það hafi verið almannarómur um skeið að „innvígðir“ fái að flytja inn efni og selja þrátt fyrir vitneskju um lögbrot. Jóhann spyr:
„Hvar fá menn tugi eða hundruði milljóna til að fjármagna kaup og innflutning?
Því getur enginn svarað.
Þess í stað er gert uppistand þegar tollurinn \"óvart\" finnur efni á flugfarþegum.
Mikill árangur er sagt.
Samt flæðir allt í ólöglegum efnum um land allt.
Kjánum í leit að tekjum fyrir flutning er refsað grimmilega.
Þeir sem fjármagna, skipuleggja og græða eru gefin grið.
Almenna löggan hamast svo á persónufrelsi ungmenna í sókn eftir árangursfyllingu í Excel skjalið.
Kannar píkur á börnum þvert á siðgæði og lög.
Finnst það bara flott enda með stuðning öfgafólks sem segist þekkja af eigin raun að dópið drepi.
Algjörir apar sem gefa grænt ljós á að allt sé leyfilegt.
Enginn segir neitt þó þegar fíknólöggi varar auðmanninn við bösti,“ skrifar Jóhann Kristjánsson.
Orrahríð að réttarríkinu
Rof á trausti til lögreglu er áhyggjuefni fyrir samfélagið allt. Ekki hjálpar til að auðmenn sem sitja í fangelsi gera nú harða hríð að dómstólum, reyna að gera þá tortryggilega, segja að réttarríkinu hafi verið nauðgað og fá tilstyrk sumra fjölmiðla til að bera þann boðskap áfram. Bæði dómsvald og framkvæmdavald eru í miðri orrahríð. Traust til löggjafans mælist á sama tíma 10-15%.
Ofan á hneykslismál innan lögreglu bætast leitandi spurningar hvort afglæpavæðing léttra fíkniefna eigi að vera næsta mál á dagskrá hvað varðar neysluskammta. Hvort öll sú orka sem fer í að hundelta einstaklinga og lögsækja burðardýr er til vitnis um rangar áherslur í fíkniefnamálum.
Einnig má velta fyrir sér hvort ýmiss konar klaufaskapur úr röðum lögreglu hefur alltaf verið fyrir hendi, enda mistök órofa tengd manneskjunni í öllum störfum. Spurt hefur verið hvort það sé ekki tilviljun hve mörg mál verði opinber nú. Tiltekin öfl eða einstaklingar kunni að sjá sér akk í að koma höggi á vissar deildir lögreglu með því að leka upplýsingum í fjölmiðla. Tilgangur óljós. E.t.v. tengdur valdabaráttu.
Kjaramál hjálpa ekki til
Störf lögreglu eru erfið og oft vanþakklát. Það kann hér líka að hafa áhrif og ýta undir freistnivanda til lögbrota eða siðlausra vinnubragða. Lögreglumenn sem Hringbraut hefur rætt við telja sig hafa verið niðurlægða í kjarabaráttu síðasta árs, verkfallsréttarlausir sem þeir eru. Sumar aðgerðir þeirra orkuðu tvímælis en þeir sáu ekki önnur ráð en að þykjast veikir heima og mæta ekki í vinnu. Þeir vildu benda á að þeir vinna hættulegt starf á öllum tímum sólarhringsins.
Óánægður starfsmaður er líklegri en ánægður til að vilja burt og líklegri til að vinna ekki vel, líklegri til að gera mistök eða vera sama um eigin mistök. Kjarabótin sem löggan náði fram á síðasta ári var milli 7 og 8%. Munaði hásbreidd að löggan myndi ekki samþykkja samninginn sem sýnir að enn eru lögreglumenn ekki sáttir við eigin kjör. Sumir aðrir hópar samfélagsins svo sem lögskipaðir verjendur, dómarar, þingmenn og fleiri fengu enda á sama tíma miklu meiri kjarahækkun, allt að 50% í einstökum tilvikum.
Traust er sérhverju samfélagi mikilvægt eins og fræðingar Gallup benda á.
En forgangsröðun fjármuna er ekki sögð hafa hjálpað þeim aðstæðum að traust til lögreglu fari aftur vaxandi í samfélaginu.
(Þessi fréttaskýring Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á hringbraut.is)