Allt að átta tíma bið á slysadeild

Ófremdarástand skapaðist á slysadeild Landspítalans í Fossvogi í gær, en þar var krökkt af fólki sem beið klukkustundum saman eftir að fá skoðun sinna meina.

Hringbraut hefur rætt við fólk sem beið frá því á sjötta tímanum í gærdag fram til að verða miðnætti eftir að fá úr því skorið hvort um handleggsbrot væri að ræða og sömuleiðis heyrt af fólki sem kom inn á slysadeidlina um tvöleytið í gær og hafði ekki fengið viðeigandi þjónustu fyrr en um tíuleytið um kvöldið.

Algeng bið eftir þjónustu í gærdag var því sex til átta tímar.

Heimildarmenn Hringbrautar segja að starfsfólk á slysadeild hafi svarað því til að deildin væri undirmönnuð; þar á bæ hefðu ekki verið terknar röntgenmyndir í þrjá tíma undir kvöld á meðan myndir, sem átti eftir að greina, hefðu hlaðist upp á borðum alltof fárra starfsmanna.

Síðdegis í gær var kallaður út aukalæknir á vakt á slysadeildinni til að bergðast við ástandinu sem þar skapaðist, en það mun vera langt frá því að vera einsdæmi.