Allra besta orkan upp til fjalla

Jónas Guðmundsson ferðamálafræðingur og verkefnastjóri hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg þekkir það af eigin raun hvaða orka nýtist mönnum best á löngum leiðangrum uppi á fjöllum og jöklum og öræfum þessa lands. Hann á að baki aldarfjórðung í starfi hjá björgunarsveitunum og hefur auðvitað ekki lengur tölu á öllum þeim leitum sem hann hefur tekið þátt í á hálendinu - og raunar hvar sem er í dölum og kollum, lægðum og hörgum. Og þá er eins gott að vera jafnvel búinn hið ytra og innra - og að kosturinn dugi erfiði manns. Hann deildi reynslu sinni í heilsu- og útivistarþættinum Lífsstíl á mánudagskvöld á sjónvarpsstöðinni Hringbraut; jú, vissulega væri alltaf gott að taka með sér flatbrauð með hangikjöti og kannski kakó með, en leyniuppskriftin væri þessi, sannkallað orkustykki: Smyrjið margar hrökkbrauðssamlokur öðru megin með hunangi og hinum megin með súkkulaði. Geymið eins og þurfa þykir. Skammturinn er alltaf jafn góður, lystugur og bragðgóður og þótt hann linist með tímanum er ekkert í andrúmsloftinu sem vinnur á þessari heimatilbúnu orkusamloku sem hrífur líkamann með sér, nema auðvitað manns eigin kjaftur. Góða ferð - og verði ykkur að góðu!  


Horfa á Lífsstíl: