Allir veðjuðu á gísla martein en villi vann - mun sagan endurtaka sig?

Í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2006 börðust Gísli Marteinn Baldursson og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson um leiðtogasæti listans í Reykjavík. Gísli Marteinn var þá, eins og nú, þjóðþekkt sjónvarpsstjarna, ungur, mælskur og galvaskur. Hann var hinn fullkomni frambjóðandi flokksins miðað við sögulegar hefðir. Gísli Marteinn kynnti framboð sitt í Iðnó fyrir fullu húsi og minnti m.a. á að hann væri á svipuðum aldri og Geir Hallgrímsson og Davíð Oddsson voru þegar þeir tóku við embætti borgarstjóra.

 

Peningaöflin í flokknum styrktu framboð Gísla Marteins af rausnarskap. Mikið var auglýst og hamast á allan tiltækan hátt. Hannes Smárason, sem þá var forstjóri FL Group, er sagður hafa borgað kosningahátíð Gísla Marteins í Háskólabíói þar sem ekkert var til sparað varðandi veitingar og skemmtiatriði.

 

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson bjó að langri reynslu í borgarstjórninni en hafði jafnan staðið í skugga manna eins og Davíðs, Alberts, Ólafs B.Thors og Árna Sigfússonar. Villi var þessi öruggi flokksmaður sem stóð með forystunni hverju sinni og beið þolinmóður eftir tækifærinu. Hann greip það þarna rétt tæplega sextugur að aldri.

 

Flestir gengu út frá því að Gísli Marteinn ætti sigurinn vísann; fræg sjónvarpsstjarna, á “réttum” aldri og með peningaöflin á bak við sig.

 

En hvað gerðist? Öllum að óvörum vann Vilhjálmur með þónokkrum yfirburðum. Og “gamli góði Villi” settist í stól borgarstjóra, fyrstur sjálfstæðismanna í heil tólf ár.

 

Mun sagan nú endurtaka sig? Mun Áslaugu Friðriksdóttur eða Kjartani Magnússyni verða umbunað fyrir að hafa sýnt þolinmæði og stuðning við leiðtoga flokksins í borginni um árabil og safnað sér dýrmætri reynslu á sviði borgarmála eða mun flokkurinn velja reynslulausan útsendara peningaaflanna eins og reynt var árið 2006 en án árangurs í það skipti.

 

Engin leið er að segja til um niðurstöðuna því kjósendur í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík eru mjög sérstakur söfnuður og ekki þverskurður neins. Alls ekki þverskurður borgarbúa. Ekki einu sinni þverskurður sjálfstæðismanna í Reykjavík.

 

Rtá.