Ríkisstjórnarflokkarnir halda áfram að tapa fylgi samkvæmt nýrri könnun MMR. Þeir eru samtals komnir niður í 40.8% fylgi og hafa tapað 5.4% á einum mánuði.
Fylgi við ríkisstjórnina er hins vegar meira en fylgi flokkanna eða 46.5%. Það hlýtur að skýrast af því að fleiri kjósendum líki við verk stjórnarinnar en geta hugsað sér að kjósa einhvern stjórnarflokkanna!
Tap stjórnarflokkanna er vandræðalegt. Einkum núna eftir lausn kjarasamninganna sem stjórnin hefur reynt að nýta sér til aukinna vinsælda. Fólk virðist sjá í gegnum margvíslegar ýkjur og blekkingar vegna aðgerða stjórnvalda sem teygjast yfir langan tíma og eru sumar hverjar vægast sagt umdeildar og óraunhæfar.
Samkvæmt könnun MMR hafa stjórnarflokkarnir tapað 7 þingmönnum frá kosningunum í lok árs 2017 og eru komnir niður í samtals 28 þingmenn.
Þar með væri ríkisstjórnin kolfallin.
Sjálfstæðisflokkurinn fengi 21.7% og 15 þingmenn. Tapaði einum frá kosningum. VG fengi nú einungis 10.4% og 7 menn kjörna en tapaði 4 þingsætum. Flokkurinn hlaut 17.9% atkvæða í kosningum og dalar jafnt og þétt. Með sama áframhaldi styttist í að flokkur forsætisráðherra fari í 9% fylgi og hafi þá tapað helmingi kjósenda sinna. Varla getur Katrín brosað breitt yfir þessari þróun sem sýnir að hún er rúin trausti.
Framsókn er einnig á hraðri niðurleið. Fengi nú 8.7% atkvæða og 6 þingmenn. Flokkurinn hrökk upp í 13% eftir Klausturmálið en nú hefur sú aukning öll lekið niður. Framsókn tapar 2.4 % milli mánaða í könnunum MMR. Og það sem verra er: Fylgið fer beint yfir á Miðflokkinn sem hlýtur að vera ákaflega sárt. Einkum fyrir Lilju varaformann sem félli af þingi.
Evrópusinnuðu flokkarnir bæta stöðugt við sig fylgi. Píratar fengju nú 15% og 10 þingmenn, Samfylking 13.9% og 9 menn kjörna og Viðreisn 9% fylgi og 6 þingmenn. Samtals 25 þingmenn en höfðu 17 þingmenn í síðustu kosningum.
Könnun MMR var gerð dagana 4. til 9. apríl, eftir að kjarasamningar náðust og ráðstafanir ríkisstjórnarinnar voru kynntar.
Hér er á ferðinni enn ein könnunin sem sýnir að ríkisstjórnin væri kolfallin ef kosið yrði núna og enn ein könnunin sem sýnir fylgishrun Vinstri grænna. Þá virðist Framsókn vera að tapa einvíginu við Miðflokkinn.