Vaxandi óvinsældir ríkisstjórnarinnar endurspeglast í slöku fylgi allra stjórnarflokkanna ef marka má skoðanakannanir vegna kosninganna á laugardag.
Reykjavík skiptir vitanlega langmestu máli og er eins konar barometer á stöðu stjórnmála í landinu. Þar virðist Sjálfstæðisflokkurinn vera langt frá ætlunarverki sínu að fella meirihlutann. VG mælast með um helming þess fylgis sem flokkurinn fékk í Reykjavík í þingkosningum sl. haust og Framsókn virðist ekki ætla að fá mann kjörinn.
Samtals gætu stjórnarflokkarnir fengið 38% fylgi, D með 25%, VG 10% og B 3%.
Í ýmsum öðrum sveitarfélögum er einnig á brattann að sækja fyrir stjórnarflokkana. Dæmi um það eru klofningur Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum og á Seltjarnarnesi, vandræði í Kópavogi vegna óhóflegra launahækkanna Ármanns bæjarstjóra, klofningur meirihlutans í Hafnarfirði og eymdarstaða flokksins í Reykjanesbæ.
Þá er óvíða byr með VG og enn síður Framsókn sem geldur samkeppninnar við Miðflokkinn.
Fróðlegt verður að fylgjast með andrúmsloftinu í landsmálum eftir kosningar ef niðurstaðan verður áfall fyrir ríkisstjórnarflokkana.
Rtá.