Geðþóttaákvarðanir í nýlegum embættisveitingum eru enn eitt klúðrið hjá Ásmundi Daðasyni ráðherra. Skipan embættismanna án auglýsinga gengur gegn kalli tímans um gagnsæi og betri stjórnsýslu.
Um miðja síðustu öld var það fest í lög að opinberar stöður skuli auglýstar til umsóknar. „Er það réttlætismál og jafnréttis, að öllum þeim, er hugur leikur á tilteknu opinberu starfi, sé veittur þess kostur að sækja um það. Ríkinu ætti þá einnig að vera meiri trygging fyrir því, að hæfir menn veljist í þjónustu þess,“ eins og sagði í lagafrumvarpinu. Það var með öðrum orðumskynsamlegt að auglýsa opinberar stöður.
Núverandi ríkisstjórnin segir í stjórnarsáttmála sínum að leggja beri áherslu á góð vinnubrögð, opna stjórnsýslu og gagnsæi. Það beri að auka gagnsæi í athafnalífi og allri stjórnsýslu til að efla traust almennings m.a. á stjórnmálum og stofnunum samfélagsins. Þar segir að óvenjulegar aðstæður kalli „á breytt vinnubrögð, opnari stjórnsýslu, gagnsæi og virðingu gagnvart verkefnum.“
Af hverju skyldi það vera eftirsóknarvert? Jú, spilling þrífst best þar sem eftirlit skortir, ákvarðanataka er óljós og aðkoma og áhrif almennings eru lítil eða engin. Spillingu má fyrirbyggja með gagnsæi hvað varðar upplýsingar og gjörðir valdhafa, sem almenningur getur skilið, treyst og fylgst með. Almenningur, sem þarf að reiða sig á ákvarðanir stjórnsýslunnar ætti að vita hvernig slíkar ákvarðanir eru teknar og á hvaða grundvelli.
Skipan þriggja embættismanna án auglýsinga
Um þetta eru nær allir sammála. Allir, nema Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, sem á dögunum skipaði í þrjár nýjar stöður: ráðuneytisstjóra, ríkisforstjóra og skrifstofustjóra. Þær stöður þurfti náttúrulega ekki að auglýsa. Þær voru skipaðar á grundvelli þröngrar lagaheimildar um flutning embættismanna í starfi.
Allt er þetta ágætisfólk. Við embætti ráðuneytisstjóra í félagsmálaráðuneyti tekurGissur Pétursson – skipaður án auglýsingar. Hann þykir hafa staðið sig með ágætum sem forstjóri Vinnumálastofnunar í áraraðir. Hann er ekki óumdeildur en er með mikla reynslu og menntun. Fyrir ráðherrann skiptir þó meiru að Gissur er framsóknarmaður í húð og hár.
Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir var skipuð - án auglýsingar - sem nýr forstjóri Vinnueftirlits ríkisins. Hún er löglærð og var skrifstofustjóri í velferðarráðuneytinu. Um reynslu hennar af vinnueftirliti er ekki vitað.
Svanhvít Jakobsdóttir, var síðan skipuð – auðvitað án auglýsingar - skrifstofustjóri yfir skrifstofu fjárlaga í félagsmálaráðuneytinu. Hún er fyrrum forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Af hverju þá ekki að fylgja meginreglum laga?
Allt er þetta ágætis fólk með talsverða reynslu. En af hverju þá ekki að fylgja meginreglum laga og auglýsa störfin? Ef þetta var svo hæft fólk má þá ekki auglýsa störfin í nafni opnari stjórnsýslu og gagnsæi? Það hefði sýnt meiri virðingu gagnvart verkefnum.
Það sem meira er að embættisskipanir byggðar á geðþóttaákvörðunum draga úr tiltrú almenninga á þessum embættum. Styrkur hæfra stjórnenda er minni fyrir vikið. Það grefur líka undan tiltrú almennings á þessum stofnunum. Og svo ekki sé talað um tiltrú starfsfólks þessara stofnana á yfirmönnum sínum.
Ekki maður nýrra tíma
Eina haldbæra skýringin er að Ásmundur Einar Daðason hafi viljað sýna vald sitt sem ráðherra með þessum geðþóttaákvörðunum. Hann er ekki maður nýrra tíma. Skítt með yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um ný vinnubrögð. Skítt með tiltrú almennings á þeim sem skipaðir voru í hin nýju störf. Skítt með þá almennu skynsemi að auglýsa beri störf. Ásmundur veit betur en við öll hin.