Mannlíf sem kemur út á föstudögum velur jafnan eina persónu sem hefur átt góða viku og aðra sem er að ljúka slæmri viku.
Að mati blaðsins var vikan að þessu sinni slæm hjá Katrínu Jakobsdóttur. Orðrétt segir:
“... hún þurfti að verja umfangsmiklar æfingar NATO-herja hér á landi þótt flokkur hennar sé alfarið á móti veru í bandalaginu. Kvennafrídagurinn spilaðist einnig illa. Hann hófst á því að ritstjóri Kvennablaðsins sakaði hana um að vera tusku í höndum Bjarna Benediktssonar og svo þurfti hún að svara fyrir ummæli ráðherra í eigin ríkisstjórn sem sagði konum að mæta fyrr í vinnuna daginn eftir því kynbundinn launamunur væri ekki til staðar.”
Já, þetta var vond vika hjá Katrínu en þó er hreint ekki allt upp talið. Til viðbótar gengu dómar í Landsrétti um lögbrot dómsmálaráðherra sem Katrín ver í stað þess að víkja henni úr ríkisstjórninni. Dómsmálaràðherra hefur nú hlotið nokkra dóma fyrir embættisafglöp rétt eins og Svandís Svavarsdóttir. Í öllum siðuðum ríkjum Vesturlanda væri búið að víkja þeim báðum úr ríkisstjórn.
Svo kom Stundin út á föstudag og birti 12 blaðsíður af ávirðingum á Bjarna Benediktsson sem lögbann var lagt á viku fyrir síðustu kosningar. Samkvæmt umfjöllun blaðsins hefur núverandi fjármálaráðherra gerst sekur um margvísleg lögbrot í aðdraganda hrunsins, þar á meðal innherjasvik.
Já, skemmtilegt fyrir formann Vinstri grænna að hafa slíkt fólk í ríkisstjórn sinni og bera siðferðislega ábyrgð á framgöngu þess!
Næstu vikur verða því miður einnig vondar hjá Katrínu. Ljóst er að bullandi ágreiningur er í ríkisstjórninni um stefnu í skattamálum. Sósíalistar heimta hækkun tekjuskatts með hátekjuþrepi, hækkun fjármagnstekjuskatts og upptöku auðlegðarskatts að nýju. Bjarni Ben segir þvert nei við því. Hann og Framsókn vilja hins vegar lækka veiðileyfagjöld sægreifanna um milljarða. Því verður ekki trúað að VG taki það í mál.
Fjöldi annarra ágreiningsmála eru óútkljáð innan ríkisstjórnarinnar. Og svo er brostið á stríð á vinnumarkaði.
Katrín reynir enn að brosa en allir hljóta að sjá að brosið nær ekki lengur til augnanna.
Katrín Jakobsdóttir hlýtur að átta sig á því að það styttist í endalokin.
Rtá.