Íslensk spilavíti verða að veruleika

Þingmenn þriggja flokka, stjórnarflokkanna og Bjartrar framtíðar standa á bak við frumvarp til laga um spilahallir sem Willum Þór Þórsson, Framsóknarflokki, mælti fyrir á þingi í gær. Samkvæmt samtölum sem Hringbraut hefur átt við þingmenn er ekki veruleg mótstaða við frumvarpið og gera flestir ráð fyrir að íslensk spilavíti muni spretta upp í kjölfar lagasetningar. Málið er mjög umfangsmikið og hefur kallað á gríðarlega vinnu og undirbúning.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að á Íslandi hafi nokkur umræða farið fram á undanförnum árum hvort rétt sé að lögleiða heimild til reksturs spilahalla. Samkvæmt almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, sé refsivert að framfleyta sér með fjárhættuspili, sbr. 183. gr. laganna. Þá sé jafnframt lögð refsing við því að stunda fjárhættuspil og veðmál í atvinnuskyni og koma öðrum til þátttöku í þeim, svo og að hafa beinar eða óbeinar tekjur af því að láta þau fara fram í húsakynnum sínum, sbr. 184. gr. laganna. 

Því er haldið fram að tímarnir hafi nú breyst þannig að brýnt sé að sporna við: \"Staðreyndin er sú að þrátt fyrir framangreind ákvæði almennra hegningarlaga hefur gætt ákveðinnar þversagnar í íslenskum lögum þar sem ýmis fjárhættuspil hafa verið heimiluð á grundvelli sérlaga svo sem happdrætti, lottó, getraunir og spila-/söfnunarkassar. Þannig eru fyrir hendi margvíslegir möguleikar fyrir almenning til að stunda fjárhættuspil sem eru heimil samkvæmt gildandi löggjöf,\" segir í greinargerðinni.

Tölvuvæðingin breytt miklu

Þessu til viðbótar hafi möguleikar almennings til að stunda óheimil fjárhættuspil einnig aukist verulega undanfarin ár. Tækifæri hafi margfaldast til þátttöku í fjárhættuspilum með tölvuvæðingunni að því er fram kemur í greinargerðinni.

Til marks um þessa þróun megi sjá að í fjölmiðlum séu auglýstar vefsíður sem bjóði almenningi aðgang að fjárhættuspilum. Um sé að ræða vefsíður sem alla jafna eru vistaðar utan Íslands og eigi íslensk stjórnvöld þar af leiðandi litla sem enga möguleika á því að hafa eftirlit með þeim eða setja um þær reglur, sbr. Hrd. 577/2008. Þá hafi fjölmiðlar og lögregla ítrekað greint frá því að ólögmætir spilasalir séu reknir hér á landi.

Markmið frumvarpsins er að setja almenna lagaumgjörð um rekstur spilahalla á Íslandi. Með frumvarpinu er lagt til að ákveðin leyfisskyld starfsemi spilahalla á Íslandi verði heimiluð sem yrði nýmæli í lögum.

\"Vegna eðlis þessarar starfsemi er rík áhersla lögð á það í frumvarpinu að gera skilmerkilega grein fyrir inntaki leyfi­sveitingar, skilyrðum fyrir veitingu leyfis og skilyrðum settum um leyfishafa. Þá er jafnframt kveðið á um tiltölulega umfangsmiklar skyldur sem fyrirhugað er að leggja á leyfishafa en það er í raun sérstakt markmið frumvarps þessa að mæla fyrir um eftirlit með starfseminni. Er lagt til að eftirlit verði umfangsmikið, en til að auðvelda stjórnvöldum eftirlitshlutverkið eru lagðar ríkar skyldur á leyfishafa til að skrá og veita stjórnvöldum fullnægjandi upplýsingar.\" Í greingerðinni segir jafnframt að Ísland sé eitt fárra ríkja í vestrænum heimi sem banni rekstur spilahalla, því rekstur þeirra sé heimilaður í nánast öllum Evrópuríkjum að Íslandi og Noregi undanskildum.

Hamlað gegn mafíustarfsemi

Í þingumræðu um málið í gær kom m.a. fram hjá flutningsmönnum að sá hópur spilafíkla sem veikastur væri fyrir muni ekki endilega stunda spilahallir. Þá var í umræðunum vitnað í að dönsk löggjöf um spilahallir sé framlag stjórnvalda í baráttu gegn skipulagðri glæpastarfsemi og sama eigi við hér.

Þá er augljóst að með vaxandi fjölmenningu og stórauknum straumi ferðamanna til landsins munu sumir sjá sér leik á borði til að þjónusta þann hóp. Það er því ekki ólíklegt að skiltum með orðinu CASINO muni bregða fyrir hvað úr hverju - ef frumvarpið verður að veruleika.

Samantekt: Björn Þorláksson