Algjörir bræðingar þessir smjördeigssnúðar

Hér eru á ferðinni undur ljúffengir smjördeigssnúðar með skinku og osti. Þetta er alvöru djúsí bakkelsi og er sniðugt hvort sem heldur með kaffinu eða í nesti í ferðalagið eða í pikknikk körfuna. Það er engin önnur er Berglind Hreiðars köku- og matarbloggari á Gotterí og gersemar sem býður okkur uppá þessa bræðinga þar sem bræddur osturinn og majónesið setja punktin yfir i-ið. Berglind féll strax fyrir þessum og segir að þessa verði allir að prófa.

M&H Smjordeigssnudar-3-683x1024.jpeg

Smjördeigssnúðar

Um 15 stykki

Tilbúið smjördeig (5 plötur/430 g)

300 g skinkukurl

60 g rifinn cheddar ostur

60 g rifinn mozzarella ostur

90 g Hellmann‘s majónes

1 msk. hunangs Dijon sinnep

½ tsk. salt

¼ tsk. pipar

20 g brætt smjör

Birkifræ

  1. Hitið ofninn í 180°C.
  2. Affrystið smjördeigið og raðið plötunum þétt upp við hvor aðra og klemmið hliðarnar á plötunum saman eins og þið getið. Gott að setja smá vatn á fingurna til að deigið festist betur saman.
  3. Setjið annan bökunarpappír yfir og snúið deiginu við, klemmið nú saman á hinni hliðinni með sama hætti.
  4. Næst má hræra saman majónesi, sinnepi, salti og pipar og smyrja yfir deigið.
  5. Stráið síðan skinku og osti jafnt yfir allt og rúllið upp í lengju.
  6. Skerið niður í um 2 cm þykka snúða, raðið á bökunarpappír á bökunarplötu og klemmið endann við eins og þið getið svo hann muni ekki standa út í loftið þegar búið er að baka snúðana, hér er líka gott að setja smá vatn á fingurna.
  7. Penslið með bræddu smjöri og bakið í um 22 mínútur eða þar til snúðarnir eru farnir að gyllast á köntunum.

Berið fram á fallegan hátt eða takið með í ferðalagið, pikknikkið eða hvaðeina sem ykkur hentar og njótið.

M&H Smjordeigssnudar-4-768x512.jpeg

Girnilegir þessir smjördeigssnúðar sem bræða hvern þann sem prófar./Ljósmyndir Berglind Hreiðars.