öÞað er gríðarleg vonbrigði að sjá hvernig stjórnmálaflokkarnir koma sér saman um að heimta stórfelldar hækkanir á styrkjum til sín úr ríkissjóði. Nefnd sem skipuð er framkvæmdastjórum flokkanna leggur til að skattgreiðendur skuli borga 648 milljónir króna til flokkanna á næsta ári. Það á að hækka framlög til flokkanna um 362 milljónir króna frá fyrra ári. Ekki minna en 127% hækkun þar á ferðinni!
Ljóst er að þeir sex flokkar sem standa að þessu eru búnir að koma sér saman um gríðarlega fjártöku úr ríkissjóði sér til handa. Eru engin takmörk fyrir ósvífninni? Þarf að halda úti ríkisreknum stjórnmálaflokkum á Íslandi? Hafa skattgreiðendur engar varnir gegn sjálftöku af þessu tagi?
Þessi tillögugerð sex flokka bendir til algerrar uppgjafar af þeirra hálfu varðandi rekstur sinn. Flokkarnir kunna ekki fótum sínum forráð þegar kemur að fjármálum. Þeir eyða ómældum peningum í kosningabaráttu sem þeir hafa ekki efni á. Þeir eyða peningum sem eru ekki til. Og svo á ríkið að borga. Skattgreiðendur fá vanskilareikning stjórnmálaflokkanna sendan. Fá hann sendan frá fólkinu sem þeir ösnuðust til að kjósa á þing.
Fyrir liggur að gömlu flokkarnir eru skuldum vafnir. Sjálfstæðisflokkurinn skuldar 550 milljónir króna. Þar af eru 300 milljónir króna að láni sem Landsbankinn hefur veitt á afar lágum vöxtum með engum afborgunum. Það er rannsóknarefni út af fyrir sig. Framsókn skuldar 250 milljónir. Þar af talsvert í vanskilum. Samfylkingin skuldar einnig mikið, sennilega ekki undir 150 milljónum króna. Og nú á ríkið að bjarga málum fyrir þessa skuldum vöfnu flokka – og hina flokkana í leiðinni.
Framkvæmdastjórar sex þingflokka skrifa undir þessa tillögu. Ljóst er að þetta er hluti af samkomulagi stjórnarflokkanna þriggja. Samfylkingin kemur með því hún er skuldum vafin. En það er hneykslanlegt að Viðreisn og Miðflokkurinn skulu taka þátt í þessu. Þeir eru ekki að draslast með margra ára gamla skuldabagga eins og hinir. Þeir hefðu átt að sýna þá reisn að taka ekki þátt í þessu.
Ríkisrekin stjórnmál eru ekki spennandi. Það er þá alveg eins hægt að sameina þessa flokka og hafa þetta bara eins og Marteinn Mosdal lagði til á sínum tíma: Það á bara að vera einn ríkisflokkur! Hann taldi einnig óþarfa að verið væri að selja margar mismunandi tegundir af gosdrykkjum: Það á bara að vera ein tegurn, ríkislímonaði.
Já, er það ekki málið: Ríkislímonaði og ríkisstjórnmálaflokkur.
Rtá.