Margir telja að Framsóknarflokkurinn sé spilltasti hagsmunagæsluflokkur landsins. Hann hefur þær hugsjónir helstar að vera við völd, hvað sem það kostar. Um áratugaskeið hefur það einkennt þennan flokk að vera til í hvað sem er, komist hann til valda. Grundvallarskoðanir þvælast yfirleitt ekki fyrir forystu flokksins á hverjum tíma. Framsókn er hentistefnuflokkur og brosir til hægri eða vinstri eftir því hvernig valdastraumar liggja.
Fyrr á árum varð einum af forystumönnum flokksins á að segja flokkinn vera “opinn í báða enda” og því var haldið að Framsóknarflokknum lengi á eftir.
Framsóknarmönnum svíður undan háði af þessu tagi enda vita þeir að það er satt. Flokksmenn fara ekki dult með það að flokkurinn nærist á valdi. Hann þarf á valdi að halda til að geta gætt hagsmuna flokkseigenda í landbúnaði og sjávarútvegi. Framsóknarflokkurinn er grímulaus hagsmunagæsluflokkur og hefur verið alla tíð.
Þegar SÍS og kaupfélögin voru upp á sitt besta mestan hluta síðustu aldar, þá rak Framsóknarflokkurinn öfluga hagsmunagæslu fyrir SÍS og kaupfélögin. Fátt annað skipti flokkinn máli. Segja má að um tíma hafi Framsóknarflokkurinn verið eins konar deild innan SÍS. Hinn pólitíski armur Sambands íslenskra samvinnufélaga. Flokkurinn kaus sér formann og forystu en hin raunverulega forysta var hjá SÍS. Forstjóri og stjórnarformaður SÍS réðu ríkjum í Framsókn. Engum datt í hug að fara gegn vilja þeirra eða efast um hvar hið raunverulega vald lá.
Nú er Samband íslenskra samvinnufélaga horfið af sviðinu og langflest kaupfélögin einnig. Einungis Kaupfélag Skagfriðinga er eftir og hefur afl, umsvif og vald. Þar ræður einn maður ríkjum, Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri. Hann er harðduglegur og klár stjórnandi, harður í horn að taka og harðdrægur í valdabaráttu á öllum sviðum þjóðlífsins. Hann ræður því sem hann vill ráða í Framsóknarflokknum. Þingmenn koma og fara, svo og formenn flokksins. En alltaf er Þórólfur á sínum stað og sá sem ræður.
Hann ákvað að Sigmundur Davíð yrði að víkja og að Sigurður Ingi tæki við þar til Lilja Alfreðsdóttir hefði náð að rata um alþingishúsið og skrifstofur stjórnarráðsins. Þá gæti hún tekið við. Komi til þess, verður Sigurði Inga örugglega komið vel fyrir enda hefur hann verið þægur þjónn flokkseigandans.
Framsókn verður að vera í ríkisstjórn til að tryggja að ekkert breytist í landbúnaði, sjávarútvegi og hvað varðar stefnu í Evrópumálum og gjaldeyrismálum. Það verður að halda í krónuna, minnsta og veikasta myntkerfi í heimi. Þjóðin verður áfram að fylgja einangrunarstefnu Framsóknar. Til þess að takast megi að viðhalda stöðnunarstefnunni og traustri einangrun verður Framsókn að vera við völd.
En nú eru blikur á lofti.
Búið að er flýta kosningum á Íslandi um hálft ár. Ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks tókst ekki að sitja við völd út kjörtímabilið. Hún hrökklaðist frá vegna þess að upp komst um vafasamt fjármálasukk Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar á Tortóla. Þjóðin ærðist og hrakti ríkisstjórnina frá völdum. Framsókn galt afhroð í kosningunum og tapaði 11 þingmönnum af 19 og jafnaði þar með Íslandsmet Samfylkingar frá árinu 2013 þegar flokkurinn tapaði einnig 11 þingmönnum. Tapaði svo 6 þingmönnum til viðbótar í kosningunum sl. haust og er nú við það að þurrkast út af þingi. Bíða Framsóknar sömu örlög næst?
Í kosningunum var ríkisstjórnin felld, kolfelld. Samt vill Sjálfstæðisflokkurinn helst vinna áfram með Framsókn í hagsmunagæslu fyrir sægreifa og Þórólf. En enginn vill vinna með þeim að því verki.
Menn leyfa sér að vona að nú verði mynduð ríkisstjórn án Framsóknar. En samt eru margir órólegir því Framsókn hefur svo oft haft lag á að smeygja sér inn í valdastöður, jafnvel þó þjóðin hafi hafnað þeim. Þeir hafa í sér falda einhverja eiginleika sem gjarnan duga þeim til að komast til valda. Enda eru prinsippmál almennt ekki að þvælast fyrir Framsókn.
Náttfari segir: Aldrei kaus ég Framsókn – en alltaf fæ ég Framsókn. Þetta er byggt á mörgum dapurlegum tilvikum.
En nú ætlar Náttfari að gerast ofurbjartsýnn og leyfa sér að trúa því að mynduð verði ríkisstjórn án Framsóknar. Ríkisstjórn sem vinni að þjóðarhag en ekki hagsmunagæslu hinna fáu og ríku sem hafa haft náttúruauðlindir þjóðarinnar til afnota fyrir allt of lítið endurgjald.
Náttfari er greinilega kominn í jólaskap.