Aldrei ætlun mín að vega að æru látins manns

Ég var að viðurkenna að þetta svar Þorsteins Víglundssonar til mín, sem sjá má hér, vekur hjá mér vissa undrun. Þá aðallega vegna þess að mér finnst afar langsótt að ég hafi verið að vega að æru látins föður hans með því að óska eftir svörum hvað lífeyrissjóðir launafólks hafa tapað miklu á 15,5 milljarða gjaldþroti BM Vallá en einungis 3,9 milljarðar fengust uppí lýstar kröfur.

Það var aldrei ætlun mín að vega að æru látins manns og hafi Þorsteinn tekið því svo bið ég hann að sjálfsögðu afsökunar á því. Það var alls ekki tilgangur minn með þessum spurningum til hans.

Ég hélt eða veit ekki annað en að einhverjir lífeyrissjóðirnir hafi verið á meðal kröfuhafa í þrotabú BM Vallá og því var þessi spurning mín til Þorsteins ekkert óeðlileg. Einnig í ljósi þess að til stóð þegar reynt var að ná nauðasamningum við kröfuhafa 2012 að lífeyrissjóðirnir kæmu með 2 milljarða inn í þá samninga. Þessi spurning var einnig ekkert óeðlileg í ljósi þess að Þorsteinn var framkvæmdastjóri BM Vallá í 8 ár.

Pistil minn byggðist upp á því að mér fannst það grátbroslegt og hræsni að bæði Þorsteinn og Guðrún Hafsteinsdóttir hafa kallað eftir inngripi frá Fjármálaeftirlitinu, vegna þess að Trúnaðarráð VR kaus að setja sína fulltrúa í stjórn LV af. Ég byggi þessa skoðun mína á því að þessi ummæli frá áðurnefndum aðilum séu grátbrosleg og hræsni í ljósi þess að ég minnist þess ekki að það hafi heyrst nokkuð frá þeim þegar lífeyrissjóðirnir töpuðu 500 milljörðum af lífeyri launafólks.

Ég spyr því, er Þorsteinn ekki að vega að æru formanns og trúnaðarráðsmanna VR með því að saka þá um að hafa nánast framkvæmt ólöglegt athæfi með því að setja fulltrúa VR í stjórn LV af og kalla eftir aðkomu FME?

Það er magnað þegar aðilar sem tengjast atvinnurekendum eru að skipta sér af innri málum stéttarfélaganna þegar kemur að því að skipa fulltrúa í stjórnir lífeyrissjóðanna. Hví í ósköpunum kölluðu ekki áðurnefndir aðilar eftir rannsókn fjármálaeftirlitsins þegar lífeyrissjóðirnir töpuðu 500 milljörðum vegna glórulausra fjárfestinga í fjármála og atvinnulífinu. Já 500 milljörðum!

Það er nú kannski rétt að rifja upp að Lífeyrissjóður verslunarmanna tapaði tæpum 18 milljörðum á hlutabréfaeign sinni í Kaupþingi, samkvæmt upplýsingum sem fram koma í skýrslu nefndar sem rannsakaði fjárfestingar lífeyrissjóðanna fyrir hrun.

Í þessu samhengi er líka rétt að rifja upp að í afriti af lánabók Kaupþings, sem lekasíðan Wikileaks birti haustið 2008, kom fram að BM Vallá skuldaði bankanum 62 milljónir evra, jafnvirði ellefu milljarða á þávirði.

Hins vegar er jákvætt að það sé endanlega staðfest að aldrei var neitt greitt til ríkissjóðs af kaupverði Sementsverksmiðjunnar af hálfu þeirra aðila sem „keyptu“ hana á sínum tíma.