Þegar ástandið er orðið það slæmt að nöttararnir á Stjórnmálaspjallinu rjúfa innsigli Opinberunarbókarinnar svo hratt að heimsendir ætti að nást vel fyrir páska freistar mín óneitanlega að láta undan eðlislægri svartsýninni. Gefast upp og sleppa svarta hundinum mínum bara lausum. Froðufellandi að sjálfsögðu.
Ég meina, jörð skelfur, skógar brenna, jöklar bráðna og vestan hafs hefur gulrauði reiðmaðurinn heldur betur skellt fölhvítu bykkjunni sem heitir COVID á skeið.
Kannski best að ganga bara af göflunum og reika gólandi, rökþrota maður í sturluðum heimi. Svona rétt áður en hinsta innsiglið opnast með tilheyrandi bræðravígum, skorti á handspritti, skeinipappír, sykruðu Kóka Kóla í 330 millilítra dósum og öllum andskotanum öðrum sem Jóhannes hótaði okkur í gömlu bókinni?
Eða ekki?
Kannski er það bara vegna þess að ég kann ekkert að reikna að ég fæ ekki 666 út úr þessu skuggalega dæmi sem við þurfum að leysa vegna þess að öll erum við óhjákvæmilega hluthafar í Ótta og skelfingu ehf.
Hendum þessu upp í almennt brot og leggjum á okkar sálarprik að nefnari er fyrir neðan strik. Eða er það ekki annars? Manngæska og skjól fyrir hrædd börn á flótta fyrir ofan strik og í nefnara tilraunin sú er skáldið kvað um að reyna að finna neistann sem kippir okkur í gír og sýnir allt sem í okkur býr.
Enginn þarf að efast um að það er þess virði. Sérstaklega ekki þegar við megum þá einhvern tímann aftur fara að knúsast, kyssast og kela.
Birtist áður í Fréttablaðinu